Laugardagur 28.8.1999
Klukkan 10.00 hófst dagur símenntunar formlega í Viðskiptaháskólanum í Reykjavík. Flutti ég ræðu um símenntun á 21. öld. Síðan skoðuðum við sýningarbása í húsakynnum Verslunarskólans í Reykjavík. Klukkan 14.00 vorum við Rut í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, þar sem Fræðslunet Suðurlands tók formlega til starfa með hátíðlegri athöfn. Klukkan 16.00 opnaði Eiríkur Smith málverkasýningu í Hafnarborg í Hafnarfirði. Var mikill mannfjöldi þar, þegar við sóttum sýninguna á leiðinni frá Selfossi. Klukkan 20.00 fórum við á sýningu á Hellisbúanum í Íslensku óperunni. Var þetta hátíðarsýning í tilefni af því, að þarna var sett aðsóknarmet í íslensku leikhúsi. Bjarni Haukur Þórisson leikari var hylltur í lok sýningarinnar ásamt þeim, sem stóðu að því að setja þennan skemmtilega einleik á svið með þeim hætti, að fleiri áhorfendur hafa sótt hann en nokkra aðra sýningu í íslensku leikhúsi.