8.8.1999 0:00

Sunnudagur 8.8.1999

Klukkan 15.30 var efnt til hátíðarathafnar við Furulundinn á Þingvöllum til að minnast þess, að 100 ár væru liðin frá því að skógrækt hófst á Íslandi en það gerðist með því, að danskur skipstjóri, Carl Hartvig Ryder, beitti sér fyrir því að hafist var handa um skógræktartilraunir á þessum stað með styrk frá danska landbúnaðarfélaginu, sem Ryder aflaði. Tómas Ingi Olrich alþingismaður og áhugamaður um trjárækt stjórnaði athöfninni og var ánægjulegt að taka þátt í henni, hlusta á tónlist, ljóð, ræður og ávörp í rúman klukkutíma í mildu, þurru veðri. Gleðilegt var, að Séra Heimir Steinsson, Þingvallaprestur og staðarhaldari, flutti hugvekju en þetta var fyrsta embættisverk hans eftir erfið veikindi frá því á páskum. Við lok athafnarinnar rituðum við Jón Loftsson, skógræktarstjóri ríkisins, og ég sem formaður Þingvallanefndar undir samstarfsyfirlýsingu, en Skógrækt ríkisins fær með henni formlega staðfestingu á mikilvægu hlutverki sínu við að fylgjast með trjágróðri innan þjóðgarðsins auk þess sem gefin er skuldbinding um varðveislu Furulundarins. Kristinn Skæringsson skógarvörður hefur fylgst með Furulundinum undanfarna áratugi af mikilli alúð en nú eru þar um 400 stæðileg tré í lundinum.