9.3.2007 23:44

Föstudagur, 09. 03. 07.

Mánudaginn 5. mars hófst frétt í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins á þessum orðum:

„Þingflokkar Samfylkingar, Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og Frjálslynda flokksins lýstu sig í dag reiðubúna til að greiða fyrir því að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, verði tekið upp í stjórnarskrá. Talsmenn flokkanna segja boltann nú hjá Framsókn.

Þingflokkarnir komu saman í dag og á eftir héldu talsmenn þeirra fund með fréttamönnum og þar sagði Össur Skarphéðinsson.

Össur Skarphéðinsson, alþingismaður: Þetta hefur verið sameiginlegt baráttumál okkar sem að erum samherjar í stjórnarandstöðu og við höfum ákveðið að ganga til samstarfs eða bjóða upp á samstarf við ríkisstjórnina til þess að ná fram þessu sameiginlega baráttumáli stjórnarflokkanna og okkar.

Þingflokkarnir samþykkja jafnframt að afgreiðsla frumvarps til nýrra stjórnskipunarlaga í þessa veru, verði nú forgangsmál áður en þingi lýkur, vilji þeirra stendur til þess að ákvæðið verði almennt sameignarákvæði á öllum náttúruauðlindum. “

Á ruv.is í dag 9. mars birtist þetta:

Forsætisráðherra reiknar enn með því að auðlindafrumvarpið verði að lögum á Alþingi með stuðningi stjórnarandstöðunnar þrátt fyrir að hart væri deilt á það á Alþingi í morgun. Búist er við því að mælt verði fyrir frumvarpi formanna ríkisstjórnarflokkanna á mánudag.

Forsætisráðherra kveðst ekki eiga von á öðru enn að það verði afgreitt á vorþingi og með stuðningi stjórnarandstöðunnar þrátt fyrir harða gagnrýni úr þeirri áttinni á Alþingi í morgun. Stjórnarandstaðan álítur að formenn ríkisstjórnarflokkanna hyggist festa kvótakerfið og framsal auðlinda til einkaaðila í sessi með frumvarpi sínu til breytinga á stjórnarskránni.

Snarpar deilur urðu í upphafi þingfundar í morgun þegar stjórnarandstaðan neitaði að samþykkja að taka frumvarpið á dagskrá með afbrigðum. Formenn stjórnarflokkanna telja minnihlutann á Alþingi starfa af óheilindum og löngun til að koma illu til leiðar í stjórnarsamstarfinu.

Ósamið er um framhald þingstarfa eftir að formönnum stjórnarflokkanna og fulltrúum stjórnarandstöðunnar á Alþingi laust saman. Hún lýsti sig reiðubúna til að samstarfs ef málið yrði tekið til vandlegrar umfjöllunar á Alþingi og haldinn yrði þingfundur á morgun. Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, segir að málin skýrist á mánudag en eftir fundahöld formanna og forseta var ákveðið að hafa ekki þingfund um helgina en eitthvað verður um nefndastörf Alþingis um helgina.

Geir Haarde forsætisráðherra sagði um miðjan dag að málið hefði sinn gang og hann ætti ekki von á öðru en að það yrði tekið fyrir á mánudag og afgreitt á þinginu með stuðningi stjórnarandstöðuna. “

Hvað er að marka þessa stjórnarandstöðu?