2.3.2007 22:53

Föstudagur, 02. 03. 07.

Jón Kristjánsson, formaður stjórnarskrárnefndar og fulltrúi Framsóknarflokksins í henni, sagði í kvöldfréttum, að innan nefndarinnar hefði ekki verið neinn áhugi á að breyta stjórnarskránni á þann veg að setja þar ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum. Hann bætti því hins vegar við, að sér þætti brýnt að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrána, enda væri gert ráð fyrir því í stjórnarsátmálanum. Sagði Jón þetta eindregið baráttumál Framsóknarflokksins og þau Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingaráðherra flokksins, og Guðni Águstsson, landbúnaðarráðherra, tóku undir með honum.

Fyrir þá, sem standa bæði utan Framsóknarflokksins og stjórnarskrárnefndar, er þetta einkennileg staða. Formaður stjórnarskrárnefndar hefur lagt ríka áherslu á samstiga afstöðu nefndarinnar og hann hefur jafnframt sagt hana aðeins hafa afgreitt eina tillögu, það er um aðferðina við breytingu á stjórnarskránni. Síðan kemur þessi sami fomaður fram á elleftu stundu og segir að breyta verði ákvæði stjórnarskrárinnar, sem ekki hefur verið rætt til hlítar innan nefndar hans.

Stjórnarskrárnefnd hefur réttilega verið hrósað fyrir að starfa fyrir opnum tjöldum. Ef nú á að leggja fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni, án þess að nefndin hafi fjallað um þær, eru öll fyrirheit um öfluga kynningu gagnvart almenningi fokin út í veður og vind. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra sagði tíma leynipukurs og funda í reykmettuðum herbergjum liðinn. Þessi hvatningarorð eiga ekki síst við, þegar stjórnarskráin og breytingar á henni eru á döfinni.  Hvers vegna á að taka upp mál á elleftu stundu og krefjast tafarlausrar breytingar á stjórnarskránni, þegar ekki var einu sinni haft fyrir að ræða málið í  sjálfri stjórnarskrárnefnd?