28.3.2007 21:09

Miðvikudagur, 28. 03. 07.

Var síðdegis í Lögbergi, þar sem lagadeild Háskóla Íslands fagnaði því, að réttarsalur hefur verið innréttaður í húsinu að frumkvæði framkvæmdastjóra Úlfljóts og með stuðningi innan og utan skólans. Í stuttu ávarpi af þessu tilefni fagnaði ég því sérstaklega að Ármann Snævarr var meðal þeirra, sem þarna voru, en hann kenndi mér í lagadeildinni á sínum tíma, auk þess sem ég átti við hann gott samstarf, þegar hann var rektor og ég formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Ánægjulegt er að fylgjast með fréttum af því, hve mörgum finnst vel hafa til tekist við sameiningu lögregluumdæma hér á höfuðborgarsvæðinu.

Í miðopnu Morgunblaðsins var í gær rætt við mæðgur, sem verja óratíma á degi hverjum í bíl á leið í vinnu og skóla. Önnur þeirra sagði þó:  „Það sjást mun fleiri lögreglubílar núna eftir að lögregluembættin á Reykjavíkursvæðinu voru sameinuð, við gatnamótin en áður og það skiptir miklu máli, enginn fer þá yfir á rauðu.“

Í Kastljósi sjónvarpsins er verið að kynna götueftirlit fíkniefnadeildar höfuðborgarlögreglunnar og einnig kynnumst við sérsveitinni. Með því að færa sérsveitina undir ríkislögreglustjóra, efla hana og gera hreyfanlegri nýtist hún mun betur en áður til margvíslegra verkefna. Sameining lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu veitir færi á meiri sérhæfingu en áður, eins og meðal annars birtist í stóraukinni virkni götueftirlitsins.