1.3.2007 20:32

Fimmtudagur, 01. 03. 07.

Flutti tvö mál á þingi í morgun og voru það síðustu frumvörpin, sem ég legg fyrir þing með tilmælum, að málin fái fra,gang fyrir þinglok. Ég hafði ekki komið í þinghúsið síðan ég veiktist 5. febrúar og var mér vel fagnað af mörgum þingmönnum.

Í dag er fagnaðardagur hjá okkur, sem viljum vinna að því að lækka skatta, því að í dag, 1. mars, lækkar virðisaukaskattur á matvælum, bókum, hljómdiskum og veitingastarfsemi í 7%.

Er þetta enn ein skattalækkunin, sem við höfum beitt okkur fyrir. Árið 1995 var skatthlutfall tekjuskatts og útsvars 41,8% og skattleysismörk 57.199 krónur. Nú er þetta skatthlutfall 35,7% og skattleysismörk 90.056. Hlutur ríkisins í skattheimtu er nú 22,75% en var t.d. 34,30% árið 1994. Við höfum fellt niður eignaskatt, sem kallaður var ekknasskattur fyrir nokkrum árum og vakti mikla reiði. Erfðafjárskatti hefur verið breytt til lækkunar. Auk þess hafa skattar á fyrirtæki verið lækkaðir í 18% en tekjur ríkisins af þeim skatti hafa stóraukist, endurspeglar það styrk og vöxt efnahagslífsins.

Þegar við hófum þessa vegferð til skattalækkana, töldu andstæðingar okkar meðal vinstri grænna og samfylkingarfólks, að við værum að stofna afkomu ríkissjóðs í óbærilega hættu og höfðu stór orð um hana. Á nýlegum landsfundi vinstri grænna taldi Steingrímur J. Sigfússon, flokksformaður og ákafasti andstæðingur skattalækkananna, stöðu ríkissjóðs hins vegar svo góða, að bæta mætti á hann 7 milljarða króna útgjöldum í þágu aldraðra á ári (sama upphæð og varið er samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar á síðasta sumri), án þess að hækka skatta. Staða ríkissjóðs væri sem sagt mjög sterk!

Í dag var birt niðurstaða í Gallup-könnun, sem sýndi vinstri græn sem stærri flokk (23,5%) en Samfylkinguna (22,5%). Merkilegt er að sjá vinstri græn vaxa í réttu hlutfalli við umræður um, að þau hafi áhuga á að starfa með Sjálfstæðisflokknum að loknum kosningum.