15.3.2007 22:22

Fimmtudagur, 15. 03. 07.

Fór klukkan 06.30 í Laugardalslaugina í fyrsta sinn síðan 5. febrúar, þegar ég komst varla á milli bakka á öðru lunganu - í morgun var þetta allt annað og betra.

Þennan dag í fyrra setti ég á vefsíðu mína:

„Vara þig fimmtánda mars, sagði spámaðurinn við Júlíus Sesar, sem svaraði: Svo maðurinn er draumvís! Við skeytum ekk’ um hann; og höldum áfram. Og síðar segir Sesar hjá Shakespeare í þýðingu Helga Hálfdanarsonar: Fimmtándi mars er kominn. Og spámaðurinn svarar: Já kominn Sesar; kominn, ekki liðinn.

Síðar þennan dag var Sesar myrtur, árið 44 fyrir Krist.

Þótt sjálfur Sesar félli fyrir morðingjahendi þennan dag, lauk ekki sögu Rómaveldis, hún hélt áfram.“

Síðan minntist ég atburða, sem gerðust þennan dag árið 2006 í Baugsmálinu og varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, þegar Bandaríkjastjórn tilkynnti, að hún mundi kalla varnarliðið heim fyrir lok september 2006.

Ég hef aldrei skilið, hvernig málsvarar Baugs hafa talið þessa tilvísun í Shakespeare þennan dag einhverja sérstaka ögrun við sig eða til þess fallna að spilla þeim málaferlum, sem enn standa. Þau viðbrögð eru í anda hinnar sögulegu dulúð ar þessa dags.

Víst er að sagan hefur haldið áfram frá 15. mars 2006 - samið var við Bandaríkjamenn og í dag voru kynnt áform um alþjóðlegan háskóla í Keflavíkurstöðinni.

Þá var einnig sagt frá því í dag, að stjórnarskrárfrumvarpi formanna stjórnarflokkanna hefði verið vísað úr sérnefnd alþingis til stjórnarskrárnefndar og þar með er ljóst, að málið verður ekki afgreitt fyrir þinglok. Sögunni lýkur ekki með því - hún heldur áfram.