4.3.2007 19:17

Sunnudagur, 04. 03. 07.

Sagt var frá því í fréttum, að líklega yrðu tveir ef ekki þrír nýir flokkar í framboði í komandi kosningum. Arndís Björnsdóttir boðaði framboð öryrkja og aldraðra og skrifar skammargrein um ríkisstjórnina í Morgunblaðið, þar sem hún sækir fram undir þeim merkjum, að við séum spilltir eiginhagsmunaseggir, sem kunnum ekki að fara með opinbert fé fyrir utan að vera sérstakir óvildarmenn aldraðra og öryrkja.

Arndís sakar okkur sjálfstæðismenn sérstaklega um að vera í öðrum takti en „gamli góði Sjálfstæðisflokkurinn okkar.“ - Þessi fortíðarþrá finnst mér alltaf dáliítið skrýtin. Hvaða ár skyldi Arndís hafa viljað, að Sjálfstæðisflokkurinn segði, að hann ætlaði hingað og ekki lengra miðað við þróun samfélagsins?

Það kemur mér óneitanlega í opna skjöldu eftir ágæt samskipti okkar Arndísar, þegar ég var menntamálaráðherra, að fá þessa köldu kveðju frá henni. Lengi skal hins vegar manninn reyna og hverjum og einum er að sjálfsögðu í sjálfsvald sett undir hvaða flaggi hann kýs að sækja fram til orrustu.

Um helgina komst ég austur í Fljótshlíð í fyrsta sinn síðan ég var þar 4. febrúar, þegar lungað féll saman í mér. Sannaðist enn og aftur, að ekki er síður gott og endurnærandi að komast í sveitasæluna um vetur en sumar.

Ánægjulegt var að heyra niðurstöður könnunar við upphaf Búnaðarþings í dag um eindregin stuðning landsmanna við bændur og matvæli frá þeim.