22.3.2007 18:21

Fimmtudagur, 22. 03. 07.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið efndi til forstöðumannafundar í dag, þar var einkum rætt um málefni útlendinga og nýjungar í starfi Þjóðskrár og rafræna þjónustu. Hildur Dungal, forstöðumaður útlendingastofnunar, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, aðstoðarríkislögreglustjóri, og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, ræddu um þróun í útlendingamálum og áhrif hennar á stofnanir þeirra. Haukur Guðmundsson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, ræddi um útgáfu nýrra dvalarleyfisskírteina, Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, ræddi um nýja stefnumörkun fyrir Þjóðskrá og framkvæmd hennar, Þorsteinn Helgi Steinarsson, verkfræðingur og ráðgjafi ráðuneytisins um rafræn úrlausnarefni, ræddi þau viðfangsefni.

Í fréttum eru menn teknir til við að deila um, hvaða staður utan Reykjavíkur sé bestur fyrir þyrlur Landhelgisgæslu Íslands. Hvers vegna er verið að fella harða dóma um, hvar höfuðstöðvar þyrlanna eigi að verða, þegar til framtíðar er litið? Sá þáttur málsins hefur einfaldlega ekki verið ræddur til hlítar. Eins og sjá má af skýrslu um þyrlurekstur landhelgisgæslunnar, sem ég lagði fram í ríkisstjórn á þriðjudag, snúast ákvarðanir stjórnvalda nú um, hve þyrlurnar eiga að vera margar og hvernig á að tryggja, að þær séu svona margar bæði tímabundið og til frambúðar.

Erfitt er að átta sig á því, hvers vegna ekki verða neinar umræður um fjölda þyrla eða gerð þeirra, þegar skýrsla er lögð fram um það efni, heldur taki menn til við að ræða, hvar þyrlurnar eigi að vera á landinu. Með fleiri þyrlum eykst hreyfanleiki þeirra og þær verða óhjákvæmilega meira á ferð um landið allt. Það liggur í hlutarins eðli. Við höfum í áratugi búið við, að allt að sjö þyrlum hafi verið í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli, án þess að vandræði hafi af því hlotist. Þvert á móti hafa áhafnir þyrlanna unnið mörg afrek frá þessum flugvöllum.