29.3.2007 20:38

Fimmtudagur, 29. 03. 07.

Síðdegis flutti ég erindi á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs, sem ég nefndi Okkar ábyrgð - öryggi og varnir Íslendinga. Ég lagði áherslu á, að breytingar í öryggismálum kölluðu fram meiri þunga í nærvörnum borgaranna en landvörnum og þess vegna skiptu borgaralegar stofnanir meira máli en hernaðarlegar, þegar litið væri til gæslu öryggishagmunanna.

Í máli mínu ítrekaði ég oftar en einu sinni, að íslensk stjórnvöld hefðu ekki heimild til að sinna hernaðarlegum verkefnum og gætu þess vegna ekki tekið þátt í gagnkvæmu samstarfi á því sviði - hér væri engin heimild til að stofna her og hugmyndir í þá veru hefðu fallið í grýtta jörð.

Ég lýsti því, hvernig staðið hefði verið að því að hrinda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006 um aukna ábyrgð íslenskra stjórnvalda í framkvæmd.

Ég varð undrandi eftir ræðu mína á spurningum fréttamanna RÚV um efni hennar. Þeir virtust helst halda, að það, sem ég sagði um varalið lögreglu, snerist um einskonar herlið. Á bakvið spurningar af því tagi býr misskilningur fyrir utan, að þær stangast á við allt það, sem ég sagði í ræðu minni um heimildir íslenskra stjórnvalda á þessu sviði. Að varalið geti haft meiri heimildir til valdbeitingar en liðið sjálft, það er lögreglan, er að sjálfsögðu með öllu fráleitt.

Án þess að ég ætla að vekja máls á því, sem helst er fréttnæmt í þessu erindi mínu, er rangt, að telja það, sem ég sagði um varaliðið fréttnæmast. Heimild til að halda úti slíku liði var í lögum hér til 1996 og veit ég ekki, hvers vegna hún var þurrkuð úr lögum.

Hafi frétt hljóðvarps ríkisins um varaliðið gefið fjölmiðlakórnum tóninn um erindið, syngur hann og þeir, sem kyrja með honum, falskt.