10.3.2007 21:04

Laugardagur, 10. 03. 07.

Nokkrum sinnum á ári lít ég inn á Sólon síðdegis á laugardögum og ræði málin við góða vini. Andrúmsloftið var lifandi og skemmtilegt í dag og mikið um að vera.

Aðdragandi kosninga, skoðanakannanir, kostir við stjórnarmyndun eru að sjálfsögu helstu umræðuefni áhugamanna um stjórnmál þessa daga.

Náin tengsl eru milli stjórnmálaumræðna og fjölmiðla. Nú hafa bankarnir þrír eða stórfyrirtæki tengd þeim náð undirtökunum í fjölmiðlaheiminum: Baugur með sína miðla, Landsbankinn er bakhjarl Morgunblaðsins og Blaðsins, Exista og Bakkavör með Viðskiptablaðið og Skjá einn. Þetta setur að sjálfsögðu svip sinn á efnistök fjölmiðlanna, eins og eignarhald gerir að sjálfsögðu alltaf.

Umræður í netheimum hér og annars staðar hafa breytt eðli fjölmiðlunar, en ég hef ekki tekið eftir því í prentmiðlum annarra landa, að lagt sé eins mikið á sig við að vitna í vefsíður eins og gert er í íslenskum blöðum. Kapphlaupið milli mbl.is og visir.is um bloggara hefur ekki farið fram hjá neinum, en það er háð til að tryggja sem flestar heimsóknir á þessar vefsíður.

Ég er ekki viss um, að netið hafi haft mikil áhrif í kosningum hér á landi til þessa, þar sem málum er ekki fylgt eftir af sama þunga og víða erlendis. Nægir að minna á bandarísku forsetakosningarnar 2004 og hve illa John Kerry var leikinn vegna umræðna á netinu um framgöngu hans í Víetnam-stríðinu eða Dan Rather, aðalfréttamaður CBS, sem hrökklaðist frá vegna þess að netverjar sýndu, að hann fór með rangt mál, þegar hann birti frétt um George W. Bush og hermennsku hans.

Þegar ég fer um netheima, rekst ég ekki á margar síður, þar sem fjallað er um málefni til að rökræða eða fræða. Miklu meira er um dóma og viðhorf, sem verða leiðinleg, þegar síðurnar hafa verið skoðaðar oft, af því að allt er svo fyrirsjáanlegt í stað þess að vera upplýsandi.