5.3.2007 21:58

Mánudagur, 05. 03. 07.

Evrópunefnd hélt 41. fund sinn í hádeginu. Við erum að nálgast lyktir nefndarstarfsins.

Stjórnarandstaðan efndi til blaðamannafundar í dag til að bjóða framsóknarmönnum upp í dans um stjórnarskrána og auðlindir sjávar. Fimm til sex fundardagar eru eftir af þinginu, en sérstök stjórnarskrárnefnd var skipuð í byrjun janúar 2005 til að ræða öll álitaefni vegna breytinga á stjórnarskránni á þessu kjörtímabili og ætlaði hún að skila tillögum sínum í ágúst 2006 samkvæmt eigin vinnuáætlun, eins og sjá má á vefsíðu hennar. Skyldi þetta allt gert til að tryggja sem bestan málefnalegan undirbúning og vandaða afgreiðslu mála fyrir þinglok nú í mars.

Halldór Ásgrímsson samdi erindisbréf nefndarinnar sem forsætisráðherra og minntist þar ekki á auðlindir sjávar. Nefndin fjallaði ekki um málið.

Eru þessi vinnubrögð stjórnarandstöðunnar til þess fallin að auka virðingu alþingis? Ég dreg það stórlega í efa. Raunar felst hvorki virðing fyrir stjórnarskránni né alþingi í þeim. Nú vilja menn, sem töluðu í meira en hundrað klukkustundir um það, hvort breyta ætti ríkisútvarpinu úr ríkisstofnun í ríkishlutafélag, afgreiða breytingu á stjórnarskránni umræðulaust.

Á blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar voru formenn tveggja flokka, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson og síðan Össur Skarphéðinsson - var það ekki eini fréttapunkturinn við fundinn, að Össur hefur ýtt Ingibjörgu Sólrúnu til hliðar?