20.3.2007 21:31

Þriðjudagur, 20. 03. 07.

Á fundi ríkisstjórnarinnar lagði ég fram skýrslu starfshóps um þróun þyrlurekstrar Landhelgisgæslu Íslands og tillögur að framtíðarlausn, sem miða að því að eiga samstarf við Norðmenn um kaup á stórum, nýjum þyrlum. Samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína.

Í dag birti ég grein í Morgunblaðinu, þar sem ég undrast hvernig sumir fjölmiðlar fjalla um nýsett lög um hertar refsingar gegn kynferðisofbeldi og leita þá uppi, sem vildu ganga lengra en meirihluti þingmanna.

Atli Gíslason, hæstaréttarlögmaður og varaþingmaður vinstri/grænna, hefur talað einkennilega um vændisákvæðin í lagabreytingunum og látið að því liggja að vændi hafi verið lögfest, þótt hann segi í hinu orðinu, að svo hafi ekki verið. Þá er einnig haft eftir honum, að lögin heimili, að hér verði reist vændishverfi. Er með ólíkindum, að lögmaður tali á þennan veg.

Breytingarnar, sem gerðar eru á 206. gr. almennra hegningalaga felast í því, að það að stunda vændi sér til framfærslu er gert refsilaust. Þetta refsiákvæði hefur um árabil verið þyrnir í augum margra, ekki síst þeirra, sem tala í nafni kvenfrelsis. Að láta eins og niðurfelling þessarar refsingar hvetji til þess, að hér verið opnuð vændishverfi er að sjálfsögðu fráleitt, fyrir utan þá staðreynd, að árvökul borgar- og bæjaryfirvöld hafa að sjálfsögðu í skipulagsvaldi sínu að ákveða, hvaða starfsemi er stunduð á þeirra skipulagssvæðum - ef þau sofna á verðinu er unnt að grípa til örþrifaráða eins og á móti spilasalnum í Mjóddinni.

Talið um að sænska leiðin svonefnda, það er að refsa þeim, sem kaupir vændi, sé allra meina bót er einfaldlega blekkingartal, enda hefur engin þjóð fetað í fótspor Svía, sem hafa hvorki útrýmt vændi né mansali heldur fært starfsemina í skúmaskot, þar sem erfiðara er en áður að fylgjast með henni og uppræta.

Í áliti sínu sagði allsherjarnefnd alþingis þetta um vændisákvæði nýsamþykktra laga:

„Í 12 gr. frumvarpsins er ákvæði 206. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um vændi breytt á þann veg að það að stunda vændi sér til framfærslu er gert refsilaust. Eftir stendur áskilnaður um að sá sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra skuli sæta fangelsi allt að 4 árum. Nefndin fagnar þessari breytingu og telur eðlilegt að stíga það skref að gera sölu á vændi refsilausa. Vændi er ein birtingarmynd kynferðisofbeldis og þeir sem það stunda gera það að jafnaði af neyð. Miklar umræður spunnust meðal nefndarmanna um það hvort rétt væri að áskilja það að kaup á vændi væru refsinæm eins og lagt hefur verið til í þingmálum sem áður hafa komið til meðferðar nefndarinnar, svokölluð „sænsk leið". Sú leið hefur þó þá ótvíræðu annmarka að hún færir vændið af götunum niður í undirheimana og að einhverju leyti yfir á veraldarvefinn og gerir það þannig ósýnilegra. Um leið verður erfiðara að ná til þeirra sem hafa milligöngu um það. Slíkt mundi hafa í för með sér aukningu á eftirliti lögreglu með brotum sem engir kærendur væru að. Nefndin bendir á að vændi er félagslegt vandamál og efast verður um að það verði leyst með refsingum. Niðurstaða nefndarinnar varð því sú að leggja þá breytingu að gera kaup á vændi refsinæm ekki til að svo komnu máli. Nefndin hvetur hins vegar til þess að fylgst verði með því af hálfu lögreglu og annarra opinberra aðila hversu umfangsmikið vandamál vændi er hér á landi og þeim sem það stunda vísað á þar til bæra aðila sem geta veitt viðeigandi aðstoð og meðferð.“

Þegar við unnum að gerð þessa frumvarps og Ragnheiður Bragadóttir prófessor kynnti mér tillögur sínar, sagðist ég vænta þess, að við framlagningu og kynningu á frumvarpinu yrðu miklar umræður um þessar breytingar á vændisákvæðinu - ég vissi um áhuga á sænsku leiðinni, en bjóst við, að gagnrýni kæmi einnig úr öðrum áttum og hún yrði kannski háværust vegna þessa ákvæðis.

Ég varð hins vegar ekki var við sérstaka gagnrýni á þetta ákvæði frumvarpsins á þeim tveimur þingum, sem það var rætt. Þess vegna kemur á óvart, hve mikið veður skuli gert einmitt vegna þessa ákvæðis núna, eftir að frumvarpið hefur verið samþykkt.

Þingmönnum var frá upphafi ljós andstaða mín við sænsku leiðina og á lokastigi málsins á þingi var fallið frá breytingartillögu í anda hennar við frumvarp mitt og í nefndinni varð sátt um þetta orðalag í áliti hennar: „Niðurstaða nefndarinnar varð því sú að leggja þá breytingu að gera kaup á vændi refsinæm ekki til að svo komnu máli.“