27.3.2007 22:34

Þriðjudagur, 27. 03. 07.

Pétur Gunnarsson, spunameistari á netinu, dró, þegar kom að niðurstöðu í starfi Evrópunefndar, pólitískar ályktanir um framtíðina, af því að við sjálfstæðismenn vorum sammála vinstri/grænum um ýmis meginatriði. Nýlega bætti hann um betur með frásögn af fundi Geirs H. Haarde og Steingríms J. Sigfússonar, sem óljóst er, hvort var haldinn. Pétur sagðist trúa eigin frásögn, af því að hann hefði heyrt hana á bar. Össur Skarphéðinsson fjallar um málið á vefsíðu sinni og segir:

„Þetta myndi ég telja mjög trúverðugt vitni. Maður, sem er staddur um miðja nótt á Ölstofu Kormáks og Skjaldar, hefur örugglega verið fullkomlega edrú, og alls ekki líklegur til að fara með fleipur.

Viðskiptavinir Ölstofunnar eru sömuleiðis þekktir fyrir að sitja þar fram undir morgun um helgar einungis í þeim tilgangi að rækta staka bindindismennsku. Ekki er því líklegt að þeir greini rangt frá.

Pétur stendur því með pálmann í höndunum í deilu þeirra Steingríms. Kaffibandalagið er á þessari stundu í hreinu uppnámi. Í rauninni er aðeins einni spurningu ósvaraði í þessum pólitíska skandal:

Hittust Geir og Steingrímur á barnum?“

Þegar ég les þessa lýsingu Össurar, velti ég fyrir mér, hvort Pétur hafi setið á þessum rökstólum, þegar hann fékk fréttir af því fyrstur manna, sem gerðist á fundum Evrópunefndar. Að óathugðu máli hefði frekar mátt ætla, að barinn væri kenndur við Mími en Kormák og Skjöld -  Mímir hefur orðið að lúta í lægra haldi fyrir þeim félögum.

Eitt er að spinna svona á vefsíðum annað að gera það í dagblöðum. Forsíðufyrirsögn Blaðsins í dag var á þessa leið: Neikvæð afstaða Sjálfstæðisflokks til Evrópusambandsaðildar: Gengur gegn hefð flokksins. - Davíð talaði fyrir ESB-aðild 1990 - Kúventi skömmu síðar.

Með þessu forsíðudrama um 17 ára gamla frétt var verið að kynna bók Eiríks Bergmanns Eiríkssonar, dálkahöfundar Blaðsins.  Víst er, að þessi stórfrétt hefur ekki orðið til á neinum bar.