30.3.2007 0:11

Föstudagur, 30. 03. 07

Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, datt í gamla pyttinn, þegar hann heyrði af ræðu minni hjá SVS og Varðbergi, hann fór að tala, áður en hann kynnti sér málið.

Að gamalreyndur þingmaður telji, að með breytingu á lögreglulögum sé verið að stofna íslenskan her, er auðvitað svo fráleitt, að Össur ætti að sjá sóma sinn í því að draga orð sín um þetta efni til baka, ef hann ætlar að vera marktækur í umræðum um öryggismál hér á heimavelli, en hann hefur oft sagt frá því, að á vettvangi þingmannasamtaka NATO sé hann meðal haukanna og leggi manna mest af viti til þeirra mála allra, sem þar eru rædd.

Hermálanefnd NATO er væntanleg hingað til lands einhvern næstu daga og ætti Össur að bera það upp við hana, hvort varalið á borð við það, sem ég ræddi um á fundinum í gær, yrði gjaldgengt sem liðsafli á vegum nefndarinnar. Mér segir svo hugur, að þar á bæ vissu menn ekki, hvaðan á sig stæði veðrið, ef þessi spurning yrði lögð fyrir þá.

Össur hefði átt að lesa ræðu mína, áður en hann tók að tala um varaliðið, því að þar slæ ég hvað eftir annað þann varnagla, að hér verði ekki stofnaður her, af því að engin lög heimili slíkt.

Ummæli Össurar eru sorgleg vegna þess að þau staðfesta enn, hve erfitt er að stofna til málefnalegra umræðna á stjórnmálavettvangi um öryggis- og varnarmál. Ég var að vona, að tími svona barnaskapar eða tindátaleiks væri liðinn, en hann er það ekki hjá Samfylkingunni. Talsmenn annarra flokka hafa brugðist við á mun málefnalegri hátt.