7.3.2007 20:47

Miðvikudagur, 07. 03. 07.

Evrópunefnd hélt 42. fund sinn í hádeginu.

Það vakti undrun mína, að á forsíðu Fréttablaðsins í dag var frétt um starfið í nefndinni. Vitnað var í gögn, sem lögð höfðu verið fram í nefndinni til umræðu og athugunar. Ég skil ekki, hver hefur séð sér hag af því að miðla þessum vinnugögnum til fjölmiðla. Stangast það á við hinn góða anda, sem ríkt hefur í nefndarstarfinu, að sagt sé frá því, án þess að heimildar sé getið.

Raunar sá ég það fyrst á vefsíðu Péturs Gunnarssonar, sem á sínum tíma starfaði náið með Halldóri Ásgrímssyni og fyrir þingflokk framsóknarmanna, að vitnað var til fundar í Evrópunefnd mánudaginn 5. mars. Virtist það gert í þeim tilgangi að gera Samfylkingunni lífið leitt. Pétur hefur síðan fylgt þessu eftir með því að vitna í Samfylkingarvefsíðu á Akureyri, sem virðist telja mig ganga erinda Bandaríkjamanna í Evrópunefnd og þess vegna hafi ég náð samstöðu með Ragnari Arnalds um andstöðu við Evrópusambandið! Kanntu annan betri? má spyrja, þegar slíkar samsæriskenningar eru lesnar.

Evrópunefnd hefur safnað miklu magni upplýsinga og síðan drögum við nefndarmenn ályktanir af þeim. Ég læt hlutlægt mat á stöðunni ráða afstöðu minni og fagna hverjum þeim, sem er sammála mér, þótt í öðrum stjórnmálaflokki sé. Illgjarn spuni Péturs Gunnarssonar um málið eða kjánalegar samsæriskenningar í nafni Samfylkingar á Akureyri breyta engu um þessa efnislegu afstöðu mína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.