26.3.2007 19:48

Mánudagur, 26. 03. 07.

Felst náttúruvernd í því að stöðva stóriðju? Hjá mörgum, sem setja náttúrvernd á oddinn, þegar þeir berjast gegn stóriðju, ræður andúðin á stóriðju áreiðanlega meiru en náttúrverndin.  Ekki bætir það stöðu stóriðjunnar, að hún skuli vera í eigu útlendinga. Yrði snúist jafnþungt gegn stóriðju í eigu Íslendinga?

Engin fyrirtæki fylgja eins ströngum öryggisreglum hér á landi og alþjóðleg álfyrirtæki. Hvers vegna skyldu þau ekki gera allt, sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir mengun? Stóriðjufyrirtæki eru vinsælir vinnustaðir.

Rannsóknir og hátækni við orkuöflun og rekstur orkufrekra fyrirtækja hefur markað þáttaskil í verkmenntun þjóðarinnar.

Víða um lönd er alið á andúð á verksmiðjum og starfsemi þeirra. Nicolas Sarkozy, sigurstranglegasti forsetaframbjóðandinn í Frakklandi, dregur ekki dul á gildi verksmiðja, þær skapi staðbundna vinnu og séu kjölfesta í byggðamálum. Hann vill veg þeirra sem mestan.