18.3.2007 20:37

Sunnudagur, 19. 03. 07.

Ég sá í fréttum að Framtíðarlandið hefur hafið áskorunarherferð á netinu, þar sem menn eiga að skrifa undir áskorun á þess vegum. Ég veit ekki, hvernig að þessari söfnun er staðið, en ég hef nú fengið meira en 40 tilmæli um að skrifa undir þessa áskorun. Ef ég yrði við þeim öllum, yrði líklega talið, að meira en 40 áskoranir hefðu borist, þótt þær væru allar frá einum manni. Þetta vekur ekki traust á framkvæmdinni fyrir utan, hve hvimleitt er að fá stöðugar sendingar af þessu tagi inn á tölvuna sína. Lofar það ekki góðu um framtíðina, ef þessi söfnun á að standa í langan tíma. (Á meðan ég skrifaði þetta duttu 10 nýjar áskoranir inn á tölvuna mína. Þetta er hvimleið tölvumengun, hvað sem öðru líður.)

Í tilefni af samþykkt alþingis á breytingum á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga hef ég hvorki lesið né heyrt sagt frá því í fjölmiðlum um hvað meginefni breytinganna snýst. Hljóðvarp ríkisins sneri sér hins vegar til þeirra í hádegisfréttum og kvöldfréttum í dag, sem telja sig eiga um sárt að binda vegna breytinganna, þar sem sérsjónarmið þeirra náðu ekki fram að ganga.

Alþingi samþykkti ekki hina svokölluðu sænsku leið í vændismálum. Hún hefur hvergi verið samþykkt nema í Svíþjóð og miðar að því að stemma stigu við mansali og vændi vegna þess í Svíþjóð. Allt aðrar aðstæður eru þar en hér. Hart var deilt um málið á finnska þinginu, áður en sænsku leiðinni var hafnað þar.

Hvers vegna skyldi fréttastofa hljóðvarpsins aðeins sýna áhuga á því, sem ekki var samþykkt, en ekki hinu, sem var samþykkt og er orðið að lögum?