11.3.2007 23:01

Sunnudagur, 11. 03. 07.

Fór um hádegisbilið á sýninguna Tækni og vit 2007 í Fífunni í Kópavogi og skoðaði það, sem vakti athygli mína, auk þess sem ég fékk mér rafrænt skilríki, sem á að koma í staðinn fyrir auðkenni og allar aðrar aðgangshindranir að netheimum, þegar fram líða stundir. Þessi skilríki eiga einnig að gera okkur kleift að nýta rafræna þjónustulagið, sem þróað hefur verið á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og ég segi frá í pistli mínum í dag. Þá get ég, þegar fram líða stundir, búið þannig um hnúta hér á síðunni, að aðeins þeir, sem hafa þau skilríki, sem ég samþykki, geti skoðað einstaka þætti síðunnar, ef ég kýs að deildaskipta henni.

Klukkan 19.00 að íslenskan tíma, 20.00 að franskan, horfði ég á Jacques Chirac, fráfarandi Frakklandsforseta, tilkynna, að hann yrði ekki oftar í framboði, en mundi samt halda áfram að helga krafta sína frönsku þjóðinni, auk þess sem hann ætlaði að halda því hjá sér, hvern hann styddi sem eftirmann sinn.

Chirac hefur nú verið 12 ár forseti en rúm 40 ár eru liðin, frá því að hann komst í fremstu röð franskra stjórnmálamanna. Haft var á orði í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins 2005 hefðu Frakkar sagt nei, af því að þeir hefðu verið búnir að fá nóg af Chirac.

Ræðustíll franskra forseta er einstakur, bæði taktarnir og orðfærið. Upphafin játning Chiracs um föðurlandsást sína var á þann veg. að líklega getur enginn leikið það eftir. Á 12 árunum, sem Chirac hefur verið forseti, hefur oft verið rætt um, að hann kæmi hingað til lands, en af því hefur ekki orðið.