8.3.2007 21:51

Fimmtudagur, 08. 03. 07.

Formönnum stjórnarflokkanna þeim Geir H. Haarde og Jóni Siguðrssyni tókst með ágætum að ná samkomulagi um orðalag á grein í stjórnarskrána um náttúruauðlindir. Umræður um málið hófust fyrir réttri viku, þegar flokksþing framsóknarmanna var að hefjast, og þeir rákust á, að ákvæði stjórnarsáttmálans um þetta efni hefði ekki verið efnt. Vandinn var sá, að stjórnarskrárnefnd undir formennsku framsóknarmanns hafði lokið störfum, án þess að gera tillögu um málið. Þess vegna voru góð ráð dýr, væru stjórnarflokkarnir sammála um að efna þetta ákvæði sáttmálans. Látið var á það reyna og lagðí Geir H. Haarde fram tillögu að lausn, sem þingflokkar beggja stjórnarflokkanna samþykktu eftir nokkrar umræður. Þessi tillaga í endanlegum búningi beggja flokka er nú í frumvarpi flokksformannanna.

Hvort tillagan verður samþykkt fyrir þinglok, kemur í ljós. Stjórnarflokkarnir hafa að minnsta kosti komið sér saman um lausn, sem stjórnarandstaðan ætlar að skoða, en Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, var hvorki með né á móti tillögunni í Kastljósi í kvöld. Virtist hann helst fetta fingur út í greinargerðina með tillögunni. Þegar stjórnarandstaðan vonaði, að hún gæti stuðlað að sundrungu meðal stjórnarflokkanna, var hún reiðubúin að samþykkja blankó-tékka fyrir framsókn í málinu - nú segir Össur, að það þurfi að skoða málið. Hvað hefur breyst? Tækifærið til að sprengja stjórnina horfið og þar með viljinn til að fallast gagnrýnilaust á sjónarmið framsóknarmanna?

Talsmenn Framsóknarflokksins í blogg-heimum, þeir Björn Ingi Hrafnsson og Pétur Gunnarsson, eru mest með hugann við það, eftir að sameiginleg niðurstaða fékkst, hvort Morgunblaðið muni ekki gleðjast, 20 ára baráttu þess lokið og það að tilstuðlan Framsóknarflokksins. Telur Björn Ingi, að Morgunblaðið gefi út aukablað í tilefni dagsins.