14.5.2016 12:00

Laugardagur 14. 05. 16

Fréttastofa ríkisútvarpsins er eini fjölmiðillinn sem gerir opinberri heimsókn Finnlandsforseta og fjögurra norrænna forsætisráðherra til Baracks Obama Bandaríkjaforseta föstudaginn 13. maí nokkur skil. Sýnir þetta hve sorfið er að öðrum fjölmiðlum í landinu að þeir hafi hvorki burði né áhuga á að sýna þessum einstaka viðburði þá athygli sem ber.

Áhugi á utanríkismálum og þróun þeirra er í lágmarki á fjölmiðlum. Hið einkennilega er að þeir nota ekki takmarkaðan mannafla eða rými til að einbeita sér að þeim þáttum utanríkismálanna sem snerta Ísland og okkar heimshluta mest. Ekki er unnt að treysta því að nokkurt blað haldi til dæmis skipulega utan um fréttir af þróun öryggismála í austurhluta Evrópu eða á Eystrasalti. Breytingarnar sem hafa orðið þar á tveimur árum eru í raun með ólíkindum en hafa farið fyrir ofan garð og neðan hér á landi vegna áhugaleysis fjölmiðlamanna.

Á vefsíðunni vardberg.is hef ég um nokkurt skeið leitast við að segja fréttir af þessum breytingum öryggismála með því að birta fréttir sem aflað er úr mörgum ólíkum fjölmiðlum en allar hafa í raun sama inntak: spennan vex með auknum hernaðarmætti og framtíðin er óvissari en áður.

Þótt ekki hafi verið hamrað á þessu í ræðum manna í Washington föstudaginn 13. maí og oft hafi verið slegið á létta strengi í ræðum manna eins og sjá má hér þar sem Washington Post segir Sigurð Inga Jóhannsson hafa slegið í gegn með skemmtilegheitum í kvöldverði forsetahjónanna er ljóst að tilefni heimsóknarinnar og undirtónn er alvarlegur og til þess að árétta samstöðu Bandaríkjanna og Norðurlandanna á óvissu- og jafnvel hættutímum.

Það eitt að ríkin öll eigi sameiginlega fulltrúa í boði Bandaríkjaforseta hefði verið óhugsandi fyrir fáeinum árum vegna stefnu Finna og Svía í öryggismálum.

Í gær birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu sem lesa má hér. Þar bendi ég á neikvæða þróun útlendingamála hvarvetna í nágrenni okkar og á það mat Europol að smyglarar standi 90% að baki komu fólks til Evrópulanda og græði á því stórfé. Stærstu hópar hælisleitenda hér eru frá Albaníu og Makedóníu, öruggum löndum. Ný útlendingalög eru til umræðu á alþingi. Lögreglustjórar telja samþykkt þeirra minnka valdheimildir lögreglu. Ekkert er um málið rætt á þingi. Þetta sannar enn almennt andvaraleysi í utanríkis- og öryggismálum.