Átök um útlendingamál – ekki á Íslandi
Morgunblaðsgrein 13. maí 2016
Útlendingamál valda deilum í öllum nágrannalöndum okkar, austan hafs og vestan. Donald Trump væntanlegur forsetaframbjóðandi repúblíkana í Bandaríkjunum aflaði sér fylgis með yfirlýsingum um að Mexíkanar skuli borga mannhelda girðingu á landamærum þeirra og Bandaríkjamanna. Girðing hefur verið reist á landamærum Ungverjalands og Austurríkis gagnvart ríkjum í fyrrverandi Júgóslavíu og Austurríkismenn undirbúa girðingu gagnvart Ítalíu í Brenner-skarði í Ölpunum.
Undir lok apríl sigraði frambjóðandi Frelsisflokksins í fyrri umferð forsetakosninga í Austurríki. Flokkurinn vill harða stefnu í útlendingamálum. Jafnaðarmaðurinn Werner Faymann sagði af sér sem kanslari Austurríkis mánudaginn 9. maí. Flokkurinn væri splundraður meðal annars vegna útlendingamála. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir það „pólitíska katastrófu“ fyrir Evrópu verði landamæravarsla hafin í Brenner-skarði.
Hæliskvóti ESB
Innan ESB er tekist á um framkvæmd kvótareglna um dreifingu hælisleitenda til ESB-landa Neiti ríki aðild að kvótakerfinu er tillaga framkvæmdastjórnar ESB að ríkið geti keypt sig undan því í eitt ár í senn. Gjald fyrir að losna við flóttamann hefur verið kynnt sem 250.000 evrur, 35 milljónir ísl. kr. á ári. Greiða á gjaldið beint til þess ríkis sem hýsir viðkomandi flóttamann.
Mikill ágreiningur um kvótareglurnar er innan ESB og óvíst að þær komi nokkru sinni til framkvæmda. Þjóðþing og ESB-þingið verða að samþykkja þær.
Í sumum löndum er reglunum líkt við fjárkúgun. Slóvakar höfðuðu árið 2015 mál gegn framkvæmdastjórn ESB fyrir ESB-dómstólnum vegna reglna sem kynntar voru þá. Það á að ráðast í dag hver verður afstaða finnsku ríkisstjórnarinnar til málsins.
Árið 2015 reyndi framkvæmdastjórnin að neyða aðildarríkin til að sætta sig við uppskipti á 160.000 flóttamönnum til að minnka álag á Ítali og Grikki. Nú hefur aðeins 1.441 manni verið úthlutað nýju landi í samræmi við þessa ákvörðun.
Ráðgert er að efla hælismálastofnun ESB og veita henni umboð til að reikna út hæfilegan fjölda hælisleitenda fyrir hvert ESB-ríki. Þá er ætlunin að koma á fót 500 manna hópi sérfræðinga í afgreiðslu hælisumsókna. Þeir verði sendir til þeirra landa þar sem vandinn vegna hælisleitenda er mestur hverju sinni.
Fækkun í Danmörku og Noregi
Svíar, Danir og Norðmenn hertu gæslu við landamæri sín í fyrra og nú hefur framkvæmdastjórn ESB samþykkt að þeir geti haldið henni enn uppi í sex mánuði til viðbótar.
Hælisleitendur í Danmörku hafa ekki verið færri í fimm ár en í apríl og mars í ár. Danska útlendingastofnunin segir að 349 hafi sótt um hæli í apríl 2016 en þeir hafi verið 564 í apríl 2015.
Í Kaupmannahöfn fagna stjórnmálamenn að Danmörk hafi fallið úr 5. í 10. sæti sé litið til þeirra ESB-landa sem taka á móti flestum hælisumsóknum. Þetta sýni að harðari stefna ríkisstjórnarinnar skili árangri. Ekki aðeins vegna landamæravörslunnar heldur einnig vegna hertra reglna um fjölskyldusameiningu og skilaboða um upptöku verðmæta í eigu aðkomufólks. Almennt hert stefna í útlendingamálum hafi dregið úr fjölda hælisumsókna. Þess vegna skipti meginmáli að ríkisstjórnin haldi áfram á sömu braut. Enn verði að fækka hælisumsóknum, þær séu nú of margar. Framfylgja beri landamæravörslu og herða útlendingalögin enn frekar.
Norska ríkisstjórnin leggur áherslu á að hælisleitendur sem ekki þarfnast verndar í Noregi snúi til heimalands síns. Til að fylgja þessari stefnu eftir hefur stjórnin ákveðið að bjóða 500 hælisleitendum sem fyrstir ákveða að hverfa frá Noregi 10.000 n.kr. aukastyrk. Í gildi eru reglur um 20.000 n.kr. stuðning við hælisleitendur sem yfirgefa Noreg. Norska ríkisstjórnin rökstyður þennan fjárstuðning með því að mun ódýrara sé fyrir norska skattgreiðendur að fólkið fari úr landi en reyni að setjast að í Noregi.
Norsk yfirvöld fylgjast náið með stefnu Dana í útlendingamálum. Þau hafa til dæmis kynnt sér aðstæður í Næstved í Danmörku þar sem farand- og flóttafólki er komið fyrir í tjaldbúðum. Hefur verið gripið til sama úrræðis í Noregi.
Norska útlendingastofnunin segir að nú sé 25.861 hælisleitandi í Noregi, flestir frá Sómalíu, þá Sýrlandi og Eritreu. Hælisumsóknum hefur heldur fækkað undanfarið en þær voru fleiri en nokkru sinni á árinu 2015.
Varað við glæpamönnum
Rob Wainwright, yfirmaður Europol, Evrópulögreglunnar, segir að í fyrra hafi tekjur glæpasamtaka af smygli á fólki til Evrópu numið allt að 6 milljörðum evra. Um 90% þeirra sem komust ólöglega til álfunnar hafi notið aðstoðar smyglara. Vöxtur í glæpastarfsemi í Evrópu er talinn hraðastur í smygli á fólki.
Europol opnaði í mars evrópska miðstöð gegn mansali. Þá hefur Europol tekið saman gagnagrunn með um 40.000 nöfnum þeirra sem eru taldir eiga aðild að mansali.
Í Svíþjóð eru 55 hverfi kölluð „No go-zones“ vegna þess að þar er engin regluleg löggæsla en glæpamenn hafa undirtökin. Hætti lögreglumenn sér inn í þessi hverfi verða þeir fyrir grjót- og jafnvel sprengjukasti eða skotið er á þá. Vegna þessa hefur lögreglan látið þau boð út ganga að hún ráði ekki lengur við ástandið í hverfunum sem eru í 22 bæjum.
Fjölgun á Íslandi
Tölur frá útlendingastofnun sýna að hælisleitendum hér fjölgar mikið á fyrsta ársfjórðungi milli áranna 2015 og 2016. Þeir voru 39 í fyrra en 134 í ár. Flestir komu frá Albaníu (33), þá frá Makedóníu (21), Írak (19) og Sýrlandi (12).
Að Albanir og Makedóníumenn séu stærsti og næst stærsti hópur hælisleitenda hér ætti að vera sérstakt rannsóknarefni í samvinnu við stjórnvöld þessara landa og Europol.
Fyrir alþingi liggur nú frumvarp til laga um útlendinga, ný heildarlög í 125 greinum með ítarlegri greinargerð. Frumvarpið var samið af nefnd fulltrúa allra þingflokka. Þar er orðið „hælisleitandi“ fellt úr íslenskum lögum og í staðinn talað um þá sem sækja um vernd. Frumvarpið er dæmi um stórmál sem hlýtur litla sem enga umræðu á opinberum vettvangi vegna samkomulags milli flokka. Það lofar ekki endilega góðu um efni þess.
Í umsögn lögreglustjóra um frumvarpið er varað við að „sú mikla áhersla sem lögð er á mannúð í frumvarpinu […] grafi undan öryggissjónarmiðum sem lögreglu ber að hafa í forgangi“ ekki síst á tímum þegar sýnt er „að flóttamenn séu hagnýttir í ólögmætum tilgangi af glæpahópum“.