18.5.2016 15:00

Miðvikudagur 18. 05. 16

Í dag ræddi ég við Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Nýlega var stefna Háskóla Íslands fram til 2021 birt og skýrir rektor nokkur atriði hennar. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld á rás 20 og síðan er hann aðgengilegur á tímaflakkinu.

Furðuskrifin vegna forsetakosninganna taka á sig ýmsar myndir. Ein birtist á vefsíðunni Stundinni þar sem tveir blaðamenn, Atli Már Gylfason og Jón Trausti Reynisson, leggja út af leiðara Morgunblaðsins í gær. Pistillinn hefst á þeim orðum að „leynd hvíli yfir höfundi“ leiðarans eins og það sé sérstakt álitaefni en allir leiðarar blaðsins eru nafnlausir og hafa verið áratugum saman, þar er lýst skoðun blaðsins en ekki einstaklings.

Síðan taka höfundarnir við rökstyðja þá skoðun sína að Morgunblaðið geri „lítið úr“ fjölmiðlamönnum vegna gagnrýni þeirra á söfnun nafna til stuðnings framboði Davíðs Oddssonar meðal starfsmanna Morgunblaðsins. Hið sérkennilega er að engu er líkara en hvorki Atli Már né Jón Trausti hafi lesið leiðarann því að athugasemdir þeirra snúast um orð í honum sem eru tilvitnun í texta sem birtist á vefsíðunni Eyjunni.

Skrif þeirra félaga á Stundinni þjóna þeim tilgangi að vega að trúverðugleika Morgunblaðsins. Málið snýst hins vegar í höndum þeirra vegna þess hve þeir standa illa að verki. Sé þráðinn að rekja til áróðursmanna Guðna Th. ættu þeir að gæta sín á að ýta ekki undir stuðning við hann á Stundinni. Vinnubrögðin sæma ekki framboðinu og vinna gegn því.

Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi vandaði ríkisútvarpinu ekki kveðjurnar þegar hann sat fyrir svörum í Speglinum klukkan 18.00 þriðjudaginn 17. maí. Arnar Páll Hauksson fréttamaður ætlaði að setja Ástþór út af laginu í upphafi samtalsins með því að nefna tölur úr skoðanakönnunum sem sýndu að stuðningur við Ástþór hefði ekki aukist þótt hann hefði margsinnis reynt að ná kjöri sem forseti. Taldi Ástþór að fréttamaðurinn ætti frekar að vinna á kassa í Bónus en titla sig fréttamann því hann væri svo vilhallur og ófaglegur! Hér má heyra brot af viðtalinu.