15.5.2016 21:10

Sunnudagur 15. 05. 16

Davíð Oddsson opnaði kosningaskrifstofu sína við Grensásveg föstudaginn 13. maí. Ég va fjarri góðu gamni ef marka má frásagnir þeirra sem sóttu viðburðinn. Davíð fór á kostum í ræðu sinni. Er ekki að efa að hann auki fylgi sitt nýti hann kosningabaráttuna til að hafa samband við sem flesta kjósendur. Davíð hefur einstakan hæfileika til að vinna fundi á sitt band og fólk hefur almennt ánægju af að hlusta á hann því að hann dregur aldrei af sér.

Hann var í samtali við Björn Inga Hrafnsson á Eyjunni í dag og sagðist ekki ætla að þiggja laun sem forsetu heldur láta eftirlaun sín duga. Ekki er að efa að þetta óvænta innlegg í baráttuna á eftir að skerpa hana. Þá hefur Davíð ítrekað gagnrýni sína á Guðna Th. vegna afstöðu hans til ESB og Icesave.

Ummæli Guðna Th. um afstöðu sína til ESB í samtali mínu við hann á ÍNN voru afdráttarlaus. Hann vill ekki að sótt sé um aðild að ESB að nýju nema það sé samþykkt í þjóðaratkvæðagfreiðslu. Hann tók sæti í nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins sem átti að vera einskonar brú gagnvart almenningi og sagði að í því starfi hefði hann áttað sig á að umsóknin var í raun ónýt vegna þess hvernig að henni var staðið.

Miðað við umræðurnar á þessum tíma vaknar spurning um hvers vegna Guðni Th. lýsti ekki þessari afstöðu á meðan hann sat í nefndinni. Þsð hefði að minnsta kosti verið í samræmi við tilgang nefndarinnar: að upplýsa almenning um stöðu mála.

Ég skrifaði reglulega um ESB-viðræðurnar á vefsíðuna evropuvaktin.is og undraðist oft hvað þessi nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins væri að gera. Taldi ég hana setta á fót að kröfu ESB til að segja mætti að skipulegt samráð væri við fulltrúa almennings.

Í samtalinu á Eyjunni sagði Davíð einnig að Guðni Th. hefði lýst yfir því að þorskastríðin væru ekki hetjudáð heldur þjóðsaga og mont. Sagði Davíð það alrangt, þarna hefði verið mikill sigur unninn hjá lítilli þjóð sem þorði að færa út landhelgina Hér má sjá fyrirlestur Guðna Th. um þetta efni.