10.5.2016 14:40

Þriðjudagur 10. 05. 16

Hér var í gær vitnað til þess sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Bylgjunni sl. sunnudag um samskipti sín við Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Ólaf Ragnar Grímsson þriðjudaginn 5. apríl, daginn sem Sigmundur Davíð boðaði afsögn sína sem forsætisráðherra.

Frásögn Bjarna varð til þess að Ólafur Ragnar ræddi málið frá sinni hlið í sjónvarpsfréttum klukkan 22.00 mánudaginn 9. maí, sama dag og hann boðaði að hann yrði ekki í framboði að nýju sem forseti Íslands. Á ruv.is er vitnað í  Ólaf Ragnar á þennan veg:

Venjan hefur nú eiginlega verið sú að menn hafa ekki verið að greina frá svona atburðum fyrr en í ævisögu sinni eða þegar dagbækur eða minnisgreinar eru birtar mörgum áratugum síðar. En fyrst Bjarni Benediktsson nefnir þetta þá get ég staðfest það að það virðist vera með þeim hætti að þáverandi forsætisráðherra hafi ekki rætt það við Bjarna Benediktsson að hann væri á leiðinni til Bessastaða með því að óska eftir þingrofi sem er nánast alveg ótrúlegt.“

Segir Ólafur Ragnar. Atburðarásin hafi satt að segja verið ótrúleg. Hann hafi sjálfur ekki viljað að forsetaembættið væri notað og því ákveðið að halda blaðamannafund eftir fundinn með Sigmundi Davíð. Ólafur Ragnar segir að Sigmundur hafi misskilið þingrofsvaldið. 

„Þetta var bara eins manns för hingað til Bessastaða til þess að knýja á um það í krafti misskilnings á þingrofsvaldinu að hann einn gæti rofið þing.“

Til þessa atviks verður lengi vitnað þegar stjórnlaga- og stjórnmálasaga Íslands er skoðuð. Dómur stjórnmálasögunnar verður að Ólafur Ragnar hafi brugðist við á skynsaman hátt þegar hann taldi nauðsynlegt að hugsa málið og skýra frá afstöðu sinni. Dómur stjórnlagafræðinnar kann að verða flóknari. Þegar hann er felldur er fyrst nauðsynlegt að vita fyrir víst hvort Sigmundur Davíð lagði beina tillögu fyrir forseta Íslands eða sýndi honum aðeins embættismenn og ríkisráðstöskuna.

Ólafur Ragnar ákvað að hætta við að hætta 18. apríl sama dag birtist þessi frétt á hringbraut.is:

„Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, er í hópi þeirra sem styðja undirskriftasöfnun sem nú þegar hefur verið hrundið af stað á Netinu þar sem skorað er á Ólaf Ragnar Grímsson að hætta. [...]

Enginn bað þig um að halda áfram, segir í áskoruninni.“

Ólafur Ragnar hætti 9. maí og Birgitta sagði: „ „Mér finnst þetta svolítið ómaklegt..“ við ríkissjónvarpið.