17.5.2016 14:00

Þriðjudagur 17. 05. 06

Hafi einhverjir haldið að Samfylkingin fengi byr í seglin við að Árni Páll Árnason félli frá framboði til formanns flokksins hafa þeir orðið fyrir vonbrigðum þegar þeir lásu í morgun niðurstöður nýrrar könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem sýnir flokkinn með aðeins 8.9% fylgi.

Séra Gunnlaugur Stefánsson, fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins, birtir grein í Fréttablaðinu í morgun þar sem hann gagnrýnir Árna Pál og Magnús Orra Schram formannsframbjóðanda fyrir „að afneita eða afskræma sögu flokksins, upphefja meint „mistök“ með stóryrðum og biðja kjósendur afsökunar á tilveru sinni“. Gunnlaugur telur flokk sem hagar málflutningi sínum á þennan veg „tæpast“ geta „notið trausts hjá þjóðinni“.

Undir þessa skoðun skal tekið. Uppdráttarsýkin sem einkennir málflutning forkólfa Samfylkingarinnar ýtir stoðum undir réttmæti fullyrðinga um að flokkurinn og forystumenn hans séu stefnulaus strá í vindi skoðanakannanna.

Af góðmennsku reynir Gunnlaugur að fegra Samfylking án þess að innistæða sé fyrir lofinu. Hér skulu nefnd fjögur atriði þessari fullyrðingu til staðfestingar:

1.   Það er ekki rétt hjá Gunnlaugi að Samfylkingin hafi verið stofnuð „ af öflugum stjórnmálahreyfingum“. Þar sameinuðust flokkar og flokksbrot í veikleika.

﷒2. Það er rangt að flokkurinn hafi frá stofnun „gegnt stóru hlutverki í stjórnmálum“. Af 16 ára tilveru hefur hann verið 6 ár í ríkisstjórn og hófst hnignun hans eftir að hafa átt forsætisráðherra í rúm 4 ár.

﷒3. Það er rangt að farsæld þjóðarinnar í dag megi rekja til ríkisstjórnarára Samfylkingarinnar 2009 til 2013.

4. Það er blekking að í útlöndum skynji menn ágæti verka Samfylkingarinnar betur en hér á landi.

Varanlegasta sögulega framlag Samfylkingarinnar var að standa sem ríkisstjórnarflokkur að setningu neyðarlaganna í október 2008. Um þetta vilja málsvarar Samfylkingarinnar sem minnst tala vegna tilrauna til þöggunar á setu ráðherra flokksins í ríkisstjórn á tíma bankahrunsins – þá var þó viðskiptaráðherrann meira að segja úr Samfylkingunni.

Í lok greinar sinnar segir Gunnlaugur að Samfylkingin njóti ekki traust nema að „þekkja sögu sína og uppskeru verkanna til heilla fyrir þjóðina“. Auðnist  flokknum þetta ekki, liggi „Alþýðuflokkurinn í dvala og nærtækt að vekja hann til verka“. 

Engum er til framdráttar og síst af öllu fylgislitlum stjórnmálaflokki að saga hans sé fegruð í blekkingarskyni eins gert er í grein Gunnlaugs Stefánssonar. Er ekki tímabært að vekja Alþýðuflokkinn?