4.5.2016 15:00

Miðvikudagur 04. 05. 16

Í dag ræddi ég við Pétur Pétursson, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Uppstigningardagur er á morgun en samtal okkur snýst að mestu um trúarleg efni auk þess sem Pétur segir frá kynnum sínum af kardínálanum sem síðar varð Frans páfi. Þátturinn verður fumsýndur kl. 20.00 í kvöld á rás 20 og verður á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun og alltaf aðgengilegur á tímaflakki Símans.

Fundargerðir framkvæmdaráðs pírata hafa verið aðgengilegar á netinu í anda hins opna samfélags sem þeir segjast boða. Nú bregður hins vegar svo við að aðgangi að fundargerðunum hefur verið lokað. Hefur birst opinber skýring á þessari ráðstöfun? Stafar hún af vaxandi átökum innan raða pírata? Eða má rekja hana til spennu innan framkvæmdaráðsins? Formaður þess sagði nýlega af sér vegna deilna við Birgittu Jónsdóttur sem hefur tekið að sér að verða andlit flokksins út á við. Segist hún taka nærri sér að þurfa að skýra fall flokksins í könnunum fyrir erlendum blaðamönnum.

Í dag birtist í Morgunblaðinu frásögn af fyrirhuguðum rannsóknum á Þingeyrum í A-Húnavatnssýslu sem ráðist er með leyfi og að frumkvæði eigenda Þingeyra, Valgerðar Valsdóttur og Ingimundar Sigfússonar. Hef ég unnið að því með Ingimundi frá hausti 2013 að koma verkefninu í það horf sem kynnt var fjölmiðlum með tilkynningu í gær. Þar segir:

„Klaustur var rekið á Þingeyrum frá 1133 til 1551, lengur en á nokkrum öðrum stað á landinu. Rannsóknin verður þríþætt og mun miða að uppgreftri minja tengdum klaustrinu, rannsóknum á vistfræði staðarins og nágrennis hans á miðöldum og loks athugunum á handritamenningu miðalda. Þá verður unnið að miðlun upplýsinga um framgang rannsóknanna.

Telja má víst að minjar í jörðu á Þingeyrum geymi mikilvægar upplýsingar um fjölþætta starfsemi klaustursins þar. Rekstur þess nær yfir góðærisár og tímaskeið hörmunga, eins og t.d. þegar svarti dauði gekk tvívegis yfir og litla ísöldin hófst.“

Þeir sem stýra rannsóknum á Þingeyrum eru Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands, Egill Erlendsson, lektor í landfræði við Háskóla Íslands, og Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu.

Í stjórn Þingeyraverkefnisins er Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, með okkur Ingimundi.

Litið er á árið 2016 sem undirbúningsár en markvissar rannsóknir hefjist árið 2017, fáist nauðsynlegt fjármagn til þeirra.