13.5.2016 19:30

Föstudagur 13. 05. 16

Viðtal mitt við Guðna Th. Jóhannesson forsetaframbjóðanda á ÍNN 11. maí er komið á netið og má sjá það hér.

Í Fréttablaðinu í dag er langt viðtal við Ólaf Ragnar Grímsson. Þar segist hann enn og aftur hafa tilkynnt framboð sitt 18. apríl af ótta við að enginn þeirra sem þá voru í kjöri nyti þess stuðnings sem þyrfti til að geta staðið undir kröfum sem gerðar eru á hendur forsetaembættinu.

Í viðtali mínu við Guðna Th. segir hann að sunnudaginn 17. apríl hafi verið ákveðið að hann byði sig fram. Mánudagskvöldið 18. apríl var Guðni Th. spurður hvort hann ætlaði ekki að bjóða sig fram. Hann sagði að mikið þyrfti að breytast til að hann byði sig fram gegn sitjandi forseta. Þetta gerði hann þó fimmtudaginn 5. maí. Í samtali okkar má heyra rök hans fyrir því.

Davíð Oddsson kynnti framboð sitt sunnudaginn 8. maí og mánudaginn 9. maí afturkallaði Ólafur Ragnar ákvörðunina um eigið framboð. Eftir framboð Guðna Th. og Davíðs „var komin upp sú ánægjulega staða að þjóðin átti kost á því að velja milli fræðimanns sem hefur mesta þekkingu allra núlifandi Íslendinga á forsetaembættinu og þess sem lengst hefur verið forsætisráðherra í lýðveldissögunni og haft samskipti við forseta, bæði Vigdísi og mig,“ segir Ólafur Ragnar í Fréttablaðinu og einnig:

„Þess vegna er ég svona glaður. Vegna þess að ég verð að skilja við embættið á þann hátt að þjóðin með góðum hætti finni sér nýjan forseta og hann geti tekið við á þann hátt að embættið sé sterkt, samband þess við þjóðina traust og forseti skilji sig frá þessari hringiðu sem einkennir flokkana, Alþingi og þann þátt lýðræðiskerfis.“

Hér er forsetinn fráfarandi að lýsa eigin skoðun. Menn geta verið honum sammála eða ósammála. Hitt er næsta undarlegt að kalla það „frjálslega umgengni við sannleikann“ að menn lýsi rökum að baki eigin ákvörðun. Þetta gerir álitsgjafinn Egill Helgason þó í pistli á Eyjunni í dag vegna viðtalsins við Ólaf Ragnar og segir hann „reyna að halda andlitinu“ þrátt fyrir eigin mistök. Eftir að hafa rætt málið stuttlega við Ólaf Ragnar er ég sannfærður um að óskammfeilni Egils er ekki á rökum reist.