24.5.2016 19:00

Þriðjudagur 24. 05. 16

Í dag flugum við klukkan 06.10 frá Keflavíkurflugvelli til Berlínar með WOW-air. Öll innritunin var rafræn og hef ég ekki reynt hana á þennan hátt áður. Allt var á áætlun og gekk eins og í sögu. Frá Schönefeld-flugvelli fórum við með lest til Leipzig og komum á gististað réttum 12 tímum eftir að við lögðum af stað frá Reykjavík.

Við höfum ekki verið hér síðan 1994 þegar sjá mátti Austur-Þýskaland rísa úr rústum kommúnismans í bókstaflegri merkingu. Hús eftir hús var endurgert og í stað hrörlegra minnismerkja sósíalismans blöstu við glæsilegar gamlar byggingar, hefðu þær ekki verið sprengdar í loft upp og látnar víkja fyrir ömurlegri húsagerðarlist að smekk ráðamanna kommúnista í Austur-Þýskalandi. Á þennan hátt og annan vildu þeir ganga í augun á Kremlverjum sem litu á óskapnaðinn sem varanleg tákn um vald sitt.

Í þessu umhverfi starfaði Vladimír Pútín fyrir sovésku öryggislögregluna KGB. Hefur það vafalaust mótað viðhorf hans til húsagerðarlistar.