20.5.2016 18:15

Föstudagur 20. 05. 16

Samtal mitt á ÍNN við Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er komið á netið og má sjá það hér.

Fyrir þingkosningar vorið 2009 samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins málamiðlunartillögu okkar Friðriks Sophussonar um að ekki yrði sótt um aðild að ESB nema umsóknin yrði fyrst samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Strax eftir fundinn tóku ESB-aðildarsinnar innan flokksins að agnúast út í þessa tillögu og fundu henni margt til foráttu. Tillagan var höfð að engu á alþingi sumarið 2009. Sótt var um aðild í krafti baktjaldamakks undir forystu Össurar Skarphéðinssonar með stuðningi vinstri grænna sem sviku með því kosningaloforð Steingríms J. Sigfússonar.

Þegar við blasti í hve miklar ógöngur stefndi í ESB-viðræðunum samþykkti landsfundur sjálfstæðismanna 24. febrúar 2013 að þeim skyldi hætt og þær ekki hafnar að nýju nema þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá taldi landsfundurinn að loka ætti Evrópustofu, áróðursstofu ESB á Íslandi. Við þessa samþykkt umturnuðust áköfustu ESB-aðildarsinnarnir innan Sjálfstæðisflokksins undir merkjum Sjálfstæðra Evrópusinna þar sem Benedikt Jóhannesson var formaður.

Eftir landsfundinn sagðist Benedikt tala fyrir munn margra sem teldu sig „landausa“ vegna ESB-ályktunar landsfundarins. Þótti honum „kjánalegt“ að ályktað hefði verið gegn Evrópustofu og íhlutun sendiherra ESB í íslensk stjórnmál. Taldi hann þetta flokknum „til mikillar skammar“ eins og hann orðaði það í samtali við Fréttablaðið 4. mars 2013.

Nú finnst líklega öllum uppnámið vegna ályktunarinnar um Evrópustofu kjánalegra en efni ályktunarinnar enda var það rökrétt afleiðing af stöðvun ESB-viðræðnanna að stofunni yrði lokað.

Benedikt hefur haldið lífi í hreyfingu sinni og ætlar nú að stofna flokkinn Viðreisn. Evrópustefnan hefur hins vegar útvatnast. Benedikt segir til dæmis á vefsíðunni heimur.is 8. maí 2016: „Þjóðin kjósi strax um hvort ljúka skuli aðildarviðræðum við Evrópusambandið til þess að ná aðildarsamningi sem borinn verður undir þjóðina.

Hann fellst með öðrum orðum á meginstefnu Sjálfstæðisflokksins í ESB-málinu. Ekki er minnst á ESB í auglýsingu um stofnfund Viðreisnar. Benedikt þegir um ESB-afstöðu sína í atkvæðavon. Samt segir hann í ofannefndri grein: „Þjóðin þarf ekki þingmenn sem svíkja loforð.“

Viðreisn hefur fengið listabókstafinn C, gamla staf Sósíalistaflokksins sameiningarflokks alþýðu. Það hefði átt að leyfa Viðreisn að hafa stafina EC til að staðfesta gæðastimpil Evrópusambandsins.