9.5.2016 14:30

Mánudagur 09. 05. 16

Þremur vikum eftir að  Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti (18. apríl) að hann yrði þrátt fyrir allt í framboði til embættis forseta Íslands í sjötta sinn skýrði hann frá því í dag (9. maí) að hann hefði fallið frá ákvörðun um framboð. Hann sendi frá sér tilkynningu þar sem sagði meðal annars:

Af skyldurækni og ábyrgð gagnvart þeim sem lengi höfðu sýnt mér mikið traust tilkynnti ég 18. apríl að ég myndi verða við þessum óskum en lýsti jafnframt yfir, að ég myndi taka því vel ef í ljós kæmi að aðrir nytu nægilegs trausts þjóðarinnar til að gegna embættinu. “

Eftir að Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson hafa boðið sig fram er eðlilegt að Ólafur Ragnar endurskoði afstöðu sína og er niðurstaða hans rökrétt.

Rætt var við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á Bylgjunni að morgni 8. maí og spurði Páll Magnússon hann meðal annars hvers vegna hann hefði hrósað Ólafi Ragnari fyrir viðbrögð hans þriðjudaginn 5. apríl eftir fund hans með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra þegar aðrir segðu að forsetinn hefði dregið Sigmund Davíð „yfir naglabrettið“ á blaðamannafundi eftir fund þeirra.

Bjarni sagði þetta hafa verið sína „upplifun“ á því sem gerðist þennan dag. Það hefði orðið algjör trúnaðarbrestur milli forseta og forsætisráðherra á fundi þeirra og forseti hefði viljað skýra sína hlið strax eftir fundinn áður en sagt yrði frá honum á annan veg.

Bjarni sagði margt hafa verið „óvanalegt“ þennan dag. Hann hefði hitt Sigmund Davíð milli klukkan 09.00 og 10.00 þennan dag og þá hefði forsætisráðherra ekki sagt sér að hann væri að fara til Bessastaða „með þingrofið“ eins og Bjarni orðaði það. Þetta gerði forsætisráðherra fyrir hádegi þennan sama dag.

Eftir hádegi batt Sigmundur Davíð síðan enda á ráðherraferil sinn á þingflokksfundi framsóknarmanna. Hann sagði síðar að hann hefði viljað hafa heimild til þingrofs tilbúna til varnar uppreisnarmönnum gegn Bjarna innan Sjálfstæðisflokksins!

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar grein í Morgunblaðið í dag sem lýkur á þessum orðum:

„Þannig liggur fyrir að Gylfi Magnússon, stjórnarmaður, vildi stefna að því að lágmarka skatta Orkuveitunnar með notkun aflandsfélags – þó Gylfi Magnússon, háskólakennari, finni aflandsfélögum allt til foráttu. Gylfi Magnússon, ráðherra, hafði ekki meira við aflandslögsögur að athuga en að hann ákvað að ráða guðföður aflandsfélaga Íslendinga, sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins!“