25.5.2016 12:00

Miðvikudagur 25. 05. 16

Deilurnar um hvort kjósa eigi í haust eða í lok kjörtímabilsins fáeinum mánuðum síðar sýna að ekki er tekist á um djúpstæð ágreiningsmál á stjórnmálavettvangi um þessar mundir. 

Einkennilegast er þegar látið er í veðri vaka að unnt verði á næsta vetri að samþykkja á alþingi lagafrumvörp sem ekki hefur tekist að leiða til lykta frá því að ríkisstjórnin settist að völdum í maí 2013. Í stjórnmálaskýringum af því tagi skauta menn alveg fram hjá þeirri staðreynd að stjórnarflokkana greinir á um mörg mikilvæg mál. Sum þeirra eru þess eðlis að borin von er að ná sameiginlegri niðurstöðu um þau á kosningavetri þegar stjórnmálamenn og flokkar leitast við að skapa sér sérstöðu.

Ríkisstjórnin hefur lokið meginverkefni sínu. Hún hefur mótað og framkvæmt stefnu um leið þjóðarinnar út úr fjármagnshöftunum. Að gera lítið úr þeim sögulega árangri með því að setja á deilur um hvort kjósa eigi nokkrum mánuðum fyrr en síðar er einkennilegt, sérstaklega þegar einn arkitekta hins sögulega árangurs, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, kýs að gera það.

Stjórnmálalífið ber svipmót upplausnar og brýnt er að jarðtengja það sem fyrst. Það verður best gert með kosningum. Um nokkurra missera skeið hefur flokkur pírata, minnsti þingflokkurinn, mælst með mest fylgi meðal kjósenda. Samfylkingin er á vonarvöl en ætlar að ná vopnum sínum undir nýjum formanni. Framtíð Bjartrar framtíðar er óviss. Nýr flokkur Viðreisn, rær á atkvæðamið Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Spurt er hvort Sigmundur Davíð njóti trausts sem formaður Framsóknarflokksins og hvort flokkurinn ætli að stíga til vinstri eða halda sig áfram á hinni hverfandi miðju.

Þegar stjórnmálaástandið er á þann veg sem það er núna er eðlilegt að kjósendur komi sem fyrst til sögunnar til að greiða úr flækjunni og ákveða hverjum þeir treysta til að fara með landstjórnina að kosningum loknum.

Sé litið til málefna er einnig eðlilegt að nú við söguleg þáttaskil í efnahagsmálum þjóðarinnar líti flokkarnir inn á við og móti sér afstöðu á grundvelli hins nýja efnahagslega umhverfis og leggi stefnu sína í dóm kjósenda. 

Meginspurningin hlýtur að vera hvort kjósendur vilji að áfram verði haldið í anda borgaralegs sjálfstæðis eða horfið verði til stjórnarháttanna sem einkenndu stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Að skýra og skilgreina þá kosti er verðugra og tímabærra viðfangsefni en naga sig í handarbökin vegna ákvarðana um kosningar fyrir lok október 2016.