2.5.2016 13:00

Mánudagur 02. 05. 16

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er hætt að skýra opinberlega frá því hvað margir mótmælendur safnast saman á Austurvelli sagði í Morgunblaðinu laugardaginn 30. apríl. Þar stóð í grein eftir Benedikt Bóas:

„Talning á bak við áætlaðan fjölda er þó vísindaleg og þegar lögreglan hefur handtalið eftir að mótmælin eru yfirstaðin er hún yfirleitt nærri lagi. Lögreglan ætlar þó að hætta að telja mótmælendur á Austurvelli, en hún varð fyrir töluverðri gagnrýni eftir að hafa gefið upp allt aðra tölu en skipuleggjendur mótmælanna. Lögreglan áætlaði að í kringum 10 þúsund manns hefðu mætt á Austurvöll þann 4. apríl sl. en mótmælendur sögðu að allt að 25 þúsund manns hefðu mætt. Eftir að hafa rýnt í vísindin á bak við talninguna er ljóst að tölur lögreglunnar eru mun nákvæmari.“

Mótmæli geta auðveldlega leitt til annarrar niðurstöðu en að er stefnt. Það mátti að minnsta kosti ætla að varla hefði vakað fyrir þeim sem margfölduðu fjöldann á Austurvelli 4. apríl að hvetja Ólaf Ragnar Grímsson til að bjóða sig fram til setu á Bessastöðum sjötta kjörtímabilið. Hann vitnaði hins vegar til mótmælanna þegar hann sagðist hættur við að hætta á blaðamannafundinum mánudaginn 18. apríl. Taldi hann þau til marks um að hann mætti ekki yfirgefa hið háa embætti sitt.

Í leiðara The Wall Street Journal í dag er vakið máls á því hvort ekki beri að líta á mótmælendurna sem reyna að eyðileggja prófkjörsfundi Donalds Trumps sem laumu-stuðningsmenn hans. Þeir gætu ekki lagt meira af mörkum til að sannfæra milljónir repúblíkana um að greiða Trump atkvæði. Kjósendur fengju að minnsta kosti þá afsökun að gera það ekki til annars en verja mál- og fundafrelsi.

Blaðið segir að vegna prófkjörsins í Kalforníu 7. júní færist mótmælin í aukana. Aðgerðasinnar láti að sér kveða við fundarstaði, trufli umferð, beiti bíla bareflum og kalli ókvæðisorð til stuðningsmanna Trumps. Þeir saki Trump ekki síst um að kynda undir hatri.

Blaðið segir að orðbragð aðgerðasinnanna vekja spurningar um hver ýti í raun undir hatur. Trump og menn hans viti hvaða áhrif ofbeldi mótmælenda hafi á hinn venjulega sjónvarpsáhorfanda. Brot gegn lögum eða ákall til stuðnings ólöglegum innflytjendum kalli á atkvæði fyrir Trump.