27.5.2016 12:00

Föstudagur 27. 05. 16

Eitt af því sem nýlga hefur komið til sögunnar í Leipzig er safn um Jóhann Sebastian Bach. Er þar beitt allri nýjustu tækni við að miðla fróðleik um Jóhann Sebastian og aðra úr Bach fjölskyldunni. Safnið er í húsi andspænis Tómasarkirkjunni og kórskólahúsinu þar sem Jóhann Sebastian og barnmörg fjölskylda hans bjó. Í húsinu sem nú geymir safnið bjó vinafjölskylda Bachs.

Þarna má sjá hluta af orgeli sem Bach skoðaði og úrskurðaði nothæft og orgelbekk sem vitað er að hann notaði á sínum tíma. Þá má einnig sjá upprunaleg handrit verka hans en þau hafa verið að finnast allt fram á síðustu ár.

Tómasarkirkjan hefur verið endursmíðuð frá tíma Bachs en minning hans svífur þarna yfir öllu.

Í kirkjunni var í gær flutt verk fyrir orgel, stóran kór og hljómsveit eftir Max Reger, tónskáld frá Leipzig.  Minnst er 100 ára ártíðar hans í ár en hann reyndi á sinn hátt að feta í fótspor Bachs.

Verkið sem hljómaði í gær heitir 100. sálmurinn og tekur um 30 mínútur í flutningi. Stjórnandinn flutti skýringar (of langar) í upphafi flutningsins og lýsti hve mikið átak hefði verið fyrir háskólakórinn í Leipzig að takast á við verkið. Kór, organleikara og hljómsveit var fagnað innilega í lok tónleikanna.