23.5.2016

Aðalfundur Aflsins 23. maí 2016

Við komum í dag saman til 14. aðalfundar Aflsins. Félagið var stofnað 1. júní 2002.  Þá settum við því lög og er tilgangur þess að stuðla að kynningu á qi gong og efla samstöðu iðkenda á Íslandi.  Hefur Aflinn helgað sig þessu verkefni síðan.

Stórt skref í kynningarstarfi félagsins var stigið í október 2013 þegar bókin Gunnarsæfingarnar kom út. Þar er lýst æfingakerfinu sem Gunnar Eyjólfsson þróaði og við höfum mörg ástundað í um tvo áratugi. 

Var ánægjulegt að fá tækifæri til þess fyrir þremur mánuðum að halda hér upp á 90 ára afmæli Gunnars og samgleðjast með honum.

Árni Zophaníasson, félagi okkar, vinnur nú að því að fullgera kvikmynd sem tekin var hér í salnum fyrir nokkrum árum þar sem Gunnar leiðir æfingarnar. Vil ég þakka Árna frumkvæði hans í þessu máli. 

Nú eru rúm tvö ár síðan sú nýbreytni var tekin upp hér í Efstaleiti að Viðar H. Eiríksson ritari tók saman lista yfir leiðara og raðaði þeim á daga. Tilgangurinn var að dreifa verkefninu svo að fleiri fengju tækifæri til að öðlast þessa þjálfun sem er lykill að útbreiðslu qi gong. Hefur það gengið eftir og hafa félagar héðan úr Efstaleiti látið að sér kveða annars staðar eins og í Hafnarfirði og Garðabæ.

Félagar í Aflinum hittast reglulega til æfinga í húsakynnum ÍSÍ.

Þakka ég öllum sem koma að því að gera kleift að standa fyrir þessu starfi félaginu og þátttakendum að kostnaðarlausu. Nú eins og allt frá upphafi eru félagsgjöld eini kostnaðurinn sem menn bera af því að nýta sér það sem í boði er undir merkjum Aflsins.

Allt er þetta í föstum skorðum og ekki ástæða að hrófla við því sem vel gengur. Aflinn stundar ekki auglýsingastarfsemi og keppir ekki við neinn við ræktun lífsorkunnar. Hins vegar má líta á Aflinn sem jarðveg fyrir sprota sem síðan lifa sjálfstæðu lífi. Nefni ég þar Orkuna í öndvegi sem félagi okkar Þóra Halldórsdóttir starfrækir og Tvo heima sem Þórdís Filipsdóttir kom á fót haustið 2015. Báðar eru þær félagar í Aflinum eins og Þorvaldur Ingi Jónsson sem hefur boðið qi gong námskeið meðal annars í Sólheimum í Grímsnesi.

Fellur vel að markmiðum Aflsins að hlú að sprotum og stuðla þannig að útbreiðslu qi gong hér á landi.

Dagana 5. og 6. september 2015 var Bandaríkjamaðurinn Ken Cohen í annað sinn með námskeið í qi gong á vegum Aflsins. Var það haldið að Kvoslæk í Fljótshlíð. Þóra Halldórsdóttir hélt utan um námskeiðið fyrir hönd félagsins. Heppnaðist það vel og endar náðu saman fjárhagslega. Vil ég þakka Þóru samstarfið.

Meðal þess sem Þóra skipuleggur fyrir Aflinn er qi gong hugleiðsla hjá Krabbameinsfélaginu í Skógarhlíð og sækja hana 15 til 20 manns tvisvar í viku, 30 mínútur í senn.

Vegna aðildar minnar að þessu hugleiðslustarfi hef ég fylgst lítillega með því sem  gerist á þessu sviði víðar en hér á landi. Vegna þess áhuga sá ég að hingað kom maður frá Google-fyrirtækinu og efndi til eins dags námskeiðs um hugleiðslu til að efla með sér leiðtogahæfni. Var námskeiðið haldið undir merkjum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands 5. apríl síðastliðinn. 

Ég sá námskeiðið hvergi auglýst nema á vefsíðu Google-félagsins og Endurmenntunarstofnunar en þar stóð að það kostaði 119 þúsund krónur að sitja námskeiðið frá 9 til 17.00 og var léttur hádegisverður innifalinn.  Mér þótti forvitnilegt að vita hve margir sóttu námskeiðið og var mér sagt að þeir hefðu verið um 40.

Fáein ár eru liðin frá því að menn fóru að stunda hugleiðslu í húsakynnum Google í Silicon Valley í Kaliforníu. Nú hefur fyrirtækinu hins vegar tekist að breyta hugleiðslunni í verðmæta söluvöru og kynna hana um heim allan sem nám í leiðtogahæfni.

Eins og áður sagði hefur Aflinn aldrei notað fjárhagslegan kvarða á það sem æft er undir merkjum hans enda teljum við ekki unnt að meta það til fjár. Sagan um erindrekann frá Google minnir okkur hins vegar á hvílík verðmæti felast í að gefa sér stund til að beina athygli að önduninni og vera hér og nú.

Undir lok skýrslu minnar vil ég þakka Viðari H. Eiríkssyni samstarfið og þá alúð sem hann sýnir Aflinum sem ritari félagsins og samstarfsmaður í stjórn frá upphafi. Frá stjórnarkjöri í júní 2014 hefur sú breyting orðið að Elsa Haraldsdóttir gjaldkeri ákvað að hverfa úr stjórninni vegna mikilla anna, þakka ég henni samstarfið í áranna rás. Sigurður Örn Sigurðarson tók við gjaldkerastarfinu af Elsu eins og samþykkt var á síðasta aðalfundi. Vil ég þakka honum samstarfið og einnig ykkur öllum ágætu félagar.

Aðalfundurinn markar lok vetrarstarfsins hér í Efstaleiti og hingað stefnum við að nýju í september.

Í sumar verða eins og áður æfingar utan dyra í Grasagarðinum í Laugardal. Þær  njóta vaxandi vinsælda.  Er stefnt að því að þær hefjist fimmtudaginn 9. júní og verði tvisvar í viku, þriðjudaga og fimmtudaga klukkan 11.00 fyrir hádegi  fram í ágúst eftir því sem veður leyfir.