16.5.2016

Höfundarverk Snorra Sturlusonar

Snorrastofa, Reykholti, 16. maí 2016.

Fyrir hönd stjórnar Snorrastofu býð ég ykkur velkomin til þessarar málstofu um höfundarverk Snorra Sturlusonar og viðtökur verka hans.

Er fagnaðarefni að nýju rannsóknarverkefni sé hrundið af stað undir merkjum stofunnar í samvinnu við stofnun Árna Magnússonar.

Snorrastofa býr yfir mikilli reynslu af rannsóknum.

Þar má nefna í fyrsta lagi Reykholtsverkefnið, þverfaglegt, alþjóðlegt miðaldarannsóknarverkefni á sviði bókmennta, fornleifafræði, landafræði og sagnfræði. Í öðru lagi goðafræðiverkefnið, alþjóðlegt verkefni þar sem gerð er grein fyrir heimildum, helstu kenningum og rannsóknarniðurstöðum um norræna goðafræði, einkum á síðustu áratugum. Í þriðja lagi nefni ég Snorrasýninguna hér á staðnum en að baki henni býr mikil rannsóknarvinna og athugun á hvernig best sé að kynna Snorra, sögu hans og arfleifð.

 Árangur allra verkefnanna er vel sýnilegur. Reykholtsverkefnið hefur getið af sér málþing og fræðirit meðal annars tvö um fornleifagröftin hér. Ritröð goðafræðiverkefnisins er í útgáfuferli hjá belgísku fyrirtæki. Snorrasýningin dregur að sér sífellt fleiri gesti.

Að þessu sinni nefni ég tvö ný verkefni.

Viðfangsefni fyrirlesarana sem hér tala í dag sýna að líta ber til margra þátta þegar hugað er að höfundarverki Snorra. Leitast verður við að svara spurningunni um höfund eða höfunda þegar litið er til miðaldaverka og hvort æðri eða umfram merking felist í verkum Snorra. Okkur verður sagt frá melankólíu á tímum Snorra, sagnaritun og brúðkaupi í Reykholti 1241 og endurritaranum Snorra. Síðan verður litið til Snorra og mótunar ensku þjóðarinnar, Snorra og Norðmanna í Ameríku og loks til ímyndar Snorra og Reykholts í nútímanum.

Ekkert stendur í raun hlutverki Snorrastofu nær en stuðla að rannsóknum af þessu tagi. Þræðir höfundarverks Snorra liggja mun víðar en menn skynja í fljótu bragði. Viðfangsefni á mörkum heima goða og manna hafa mikla skírskotun í samtímanum og auðveldara er nú en nokkru sinni fyrr að kynna öllum almenningi það sem gerist á þessum mörkum.

Þeir sem vilja styðjast við bitastætt, sígilt efni leita gjarnan í smiðju Snorra. Á 19. öld gerði Wagner það við smíði Niflungahringsins, þríleiksins sem lauk með Ragnarökum. Á 21. öld hefur verið gerður þríleikur á hvíta tjaldinu um Þór, lokaþáttur hans heitir Ragnarök. Sjá má að framleiðendurnir hafa halað inn 924 milljónir dollara með gerð kvikmyndanna.

Forseti Finnlands og fjórir norrænir forsætisráðherrar voru opinberir gestir Bandaríkjaforseta í síðustu viku. Þegar Barack Obama bauð þau velkomin tengdi hann sjónvarpsþáttaröðina vinsælu Game of Thrones norrænum menningararfi – gætir ekki áhrifa Snorra þar? 

Hér er í raun um óendalegt verkefni að ræða, megi ég orða það svo. Einmitt þess vegna skiptir máli að skilgreina hvert skref vel og tapa ekki fótfestunni.

Það minnir á gildi þess að búa þannig um hnúta hér í Reykholti að þeir sem hingað koma öðlist virðingu fyrir Snorra og höfundarverki hans.

Auk stuðnings við rannsóknir er einmitt höfuðverkefni Snorrastofu að stuðla að þessu  í samvinnu við heimamenn.

Rannsóknarstarf á vegum Snorrastofu er ekki landfræðilega bundið við Reykholt. Vil ég þá víkja að hinu rannsóknarverkefninu. Það snertir Snorra að minnsta kosti óbeint og kann auk þess að varpa ljósi á tilurð höfundarverks hans.

 Hér vísa ég til svonefnds Þingeyraverkefnis sem var formlega hleypt af stokkunum í byrjun þessa mánaðar.

          Þar er um að ræða fræðilegar rannsóknir á Þingeyraklaustri. Eigendur Þingeyra í A-Húnavatnssýslu, hjónin Valgerður Valsdóttir og Ingimundur Sigfússon, hafa haft frumkvæði að rannsóknunum.

Klaustur var rekið á Þingeyrum frá 1133 til 1551, lengur en á nokkrum öðrum stað á landinu. Rannsóknin verður þríþætt og mun miða að uppgreftri minja tengdum klaustrinu, rannsóknum á vistfræði staðarins og nágrennis hans á miðöldum og loks athugunum á handritamenningu miðalda. Þá verður unnið að miðlun upplýsinga um framgang rannsóknanna.

Telja má víst að minjar í jörðu á Þingeyrum geymi mikilvægar upplýsingar um fjölþætta starfsemi klaustursins þar. Rekstur þess nær yfir góðærisár og tímaskeið hörmunga, eins og t.d. þegar svarti dauði gekk tvívegis yfir og litla ísöldin hófst.

Við forkönnun sem fram fór á Þingeyrum sumarið 2015 fannst rúst klausturkirkjunnar skammt norðan við núverandi bæjarstæði Þingeyra og benda jarðsjármælingar enn fremur til þess að miklar minjar séu í jörðu norður af henni. Svo virðist sem rúst klausturkirkjunnar sé tiltölulega vel varðveitt enda liggur hún nokkuð djúpt í jörðu. Fyrsti áfangi fornleifarannsókna á Þingeyrum miðar að uppgreftri á rúst klausturkirkjunnar, legstæða innan hennar og öskuhauga á staðnum. Ekkert annað klaustur frá þessu tímaskeiði Íslandssögunnar hefur verið rannsakað með þeim hætti sem hér er áformað.

Nú þegar er unnið að verkefni í A-Húnavatnssýslu sem snýr að umhverfisbreytingum á síðastliðnum 10.000 árum, fyrst af völdum loftslags og síðar einnig af völdum landnotkunar frá landnámi. Innan ramma Þingeyraverkefnisins verður sérstaklega hugað að greiningum á frjókornum og jarðvegi til að varpa ljósi á landnotkun og vistfræðilegar aðstæður á Þingeyrum og víðar í héraðinu á tíma klaustursins.

Á sínum tíma var Þingeyraklaustur í miklum tengslum við Reykholt. Aðild Snorrastofu að Þingeyraverkefninu snýst um rannsókn á hlutverki klaustursins í handritamenningu miðalda í víðu samhengi, m.a. með skoðun tengsla þess við sambærilegar stofnanir í öðrum löndum. Er stefnt að alþjóðlegri vinnustofu um verkþáttinn. 

Þeir sem stýra rannsóknum á Þingeyrum eru Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands, Egill Erlendsson, lektor í landfræði við Háskóla Íslands, og Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu.

Minjastofnun hefur veitt heimild til fornleifarannsókna vegna klaustursins og er haft samráð við hana um framvindu þeirra. Á Þingeyrum er eina klaustursvæðið á landinu sem lýtur forræði Minjastofnunar vegna rannsókna og má rekja það til friðlýsingar svonefnds dómhrings á staðnum á fyrri hluta 20. aldar. Hugsanlega mun Minjastofnun rannsaka svæðið við dómhringinn í sumar en margt bendir til að klaustrið hafi náð til þess svæðis sem einkennt er með honum.

Litið er á árið 2016 sem undirbúningsár en markvissar rannsóknir hefjist árið 2017, fáist nauðsynlegt fjármagn til þeirra. Á Þingeyrum er vafalaust um margra ára verkefni að ræða. Stjórnendur rannsóknanna bera hver um sig ábyrgð á sínu sviði en komið hefur verið á fót félagi og þriggja manna stjórn þess til að halda þráðum saman við framvindu verkefnisins í umboði eigenda Þingeyra. Sitjum við Guðrún Nordal í stjórninni ásamt Ingimundi Sigfússyni.

 

Góðir áheyrendur!

 

Hér hef ég nefnt tvö stór rannsóknarverkefni hið fyrra er tengt Snorra Sturlusyni beint og hið síðara óbeint. Bæði munu þau varpa ljósi á íslenska miðaldamenningu og alþjóðleg tengsl hennar. 

Ég þakka ykkur fyrir að koma hingað í Reykholt til að leggja rækt við minningu Snorra Sturlusonar og segi málstofuna setta.