8.5.2016 12:00

Sunnudagur 08. 05. 16

Davíð Oddsson hefur ákveðið að leita eftir stuðningi í forsetakosningunum 25. júní. Hann orðaði framboð sitt á þann veg í samtali við Pál Magnússon á Bylgjunni að framboðsfrestur rynni út 21. maí og fram til þess tíma hefði hann tóm til að taka endanlega ákvörðun. Ekki fór hins vegar á milli mála að Davíð hefur gert upp hug sinn og rökstuddi framboð sitt á öflugan hátt eins og honum einum er lagið.

Við þetta verða enn þáttaskil í kosningabaráttu sem fáir væntu að yrði stormasöm áður en birting Panamaskjalanna hófst. Hvað sem segja má um efni skjalanna sem verða birt í heild í á morgun hafa þau markað varanleg spor í íslenska stjórnmálasögu. 

Davíð taldi í samtalinu við Pál að atburðarásin hefði verið alltof hröð eftir að sjónvarpsviðtalið birtist við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sunnudaginn 3. apríl. Spurning er hver átti að stíga á bremsuna og hægja á ferðinni. Áfallið vegna þess hvernig forsætisráðherrann var leikinn í sjónvarpsþættinum var þess eðlis að hann einn gat snúið vörn í sókn. Honum mistókst það.

Vissulega er rétt hjá Davíð að illa var farið með Sigmund Davíð í sjónvarpsþættinum. Hann var hins vegar tekinn upp 11. mars og allan tímann fram til 3. apríl hafði forsætisráðherra til að búa í haginn fyrir sig. Það gerði hann ekki á þann hátt sem þurfti til að minnka áhrif þáttarins þegar hann var sýndur.

Tveimur vikum eftir að dagar Sigmundar Davíðs í embætti forsætisráðherra voru taldir lýsti Ólafur Ragnar yfir að hann væri hættur við að hætta vegna mótmæla og óvissu á stjórnmálavettvangi. Gaf hann til kynna að hann hefði áfram hlutverki að gegna sem öryggisventill í samfélaginu.

Guðni Th. Jóhannesson gaf kost á sér til forseta á fjölmennum fundi fimmtudaginn 5. maí og nú Davíð Oddsson fimm vikum eftir að Panamaskjölin og handhafar þeirra komu forsætisráðherra í opna skjöldu segir Davíð Oddsson í útvarpsviðtali að hann sé í framboði.

Davíð hefur áður valið útvarpsviðtal til að flytja þjóðinni mikilvægan boðskap. Þetta gerði hann til dæmis á bolludag í mars 2003 þegar hann snerist til varnar gegn bandalagi Fréttablaðsins og Samfylkingarinnar í morgunspjalli við Óðin Jónsson sem þá var að fara af stað með nýjan þátt í ríkisútvarpinu eins og Páll gerir núna á Bylgjunni. Viðtalið 2003 skipti miklu í kosningabaráttunni Davíð í vil. Gerist hiða sama núna?