3.5.2016 12:00

Þriðjudagur 03. 05. 16

Í nýrri könnun frá Gallup sem birt var í gær er Sjálfstæðisflokkurinn (27%) orðinn ívið stærri en píratar (26,6%) sem lækka um 9 prósentustig milli kannanna. Framsóknarflokkur mælist með 11% og hækkar um 4 prósentustig milli kannanna. Niðurstaðan fer fyrir brjóstið á Birgittu Jónsdóttur, leiðtoga pírata, sem segir á FB-síðu sinni mánudaginn 2. maí:

„Ekki græt ég tilfærslur á fylgi við okkur, en að almenningur umbuni panamaflokkunum með auknu trausti eftir allt það sem á undan er gengið er mér algerlega ofviða. Framsókn bætir við sig 4% frá síðustu könnun (fylgisaukning upp á 1/4) og Sjálfstæðisflokkur heldur sínu.

Ég hreinlega þori ekki að deila þeirri staðreynd með erlendum blaðamönnum því nú er sem sú mikla mótmælaalda sem reið yfir landið eins og siðferðislegur jarðskjálfti hafi hafi þveröfug áhrif.“

Sérkennilegt er að Birgittu eru erlendir blaðamenn hugleiknastir þegar hún ræðir þessa könnun. Það kemur þó heim og saman við að enginn þingmaður hefur líklega nýtt setu sína á þingi jafn ríkulega til að koma ár sinni fyrir borð erlendis og Birgitta. Hún sagði til dæmis skilið við Margréti Tryggvadóttur og Þór Saari í Hreyfingunni sumarið 2012 og gekk til liðs við pírata af því að þau vildu ekki að hún yrði fulltrúi þeirra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 2012. Var Birgittu þetta svo mikið hjartans mál að Hreyfingin reyndi meira að segja að fá reglum alþingis hnikað henni í vil.

Meðal ráðamanna í flokki pírata loga illdeilur vegna framgöngu Birgittu sem miðar allt flokksstarfið við sig og hvernig mál líta út fyrir hana sjálfa, ekki síst gagnvart erlendum blaðamönnum. Þori hún að tala við erlenda blaðamenn núna færir hún frásögnina í hagstæðan búning fyrir sig.

Virðing pírata fyrir háttvirtum kjósendum birtist í ummælum á FB-síðu Birgittu. Hér eru fjögur fyrstu tekin sem dæmi:

„Höfðingjaóttinn og þrælslundin virðist vera innbyggður í landann. Alveg ótrúlegt!!!“

Má ég giska á að þetta sé fyrst og fremst afneitun og síðan flokksblinda og flokkshollusta.“

íslenska gullifiskasyndromið, alveg með ólíkindum hvað skammtímaminni landans er lítið, það er eins og fólki muni ekki milli daga hvað er að gerast í þjóðfélaginu.“

„Þjóðin hefur farið í gegnum fjögur stig sorgarviðbragða og fer síðan eins og lamda eiginkonan heim til hrottans aftur“