30.5.2016 20:30

Mánudagur 30. 05. 16

Inn á Facebook setti ég 4 mínútna myndskeið sem endurspeglar hrifninguna í Semperóperunni að kvöldi sunnudags 29. maí eftir sýninguna á Lohengrin. Á myndskeiðinu sem má skoða hér sést þegar nokkrir aðalsöngvaranna og hljómsveitarstjórinn koma og taka við þökkum áhorfenda og síðan er einnig mynd af flytjendum öllum og hljómsveitinni. Hér má lesa um Lohengrin-sýninguna á vefsíðu Semperóperunnar. Uppfærslan er sannarlega meiriháttar viðburður í þýsku menningarlífi um þessar mundir. 

Fyrir þann sem notar netið eins mikið og ég skiptir aðgangur að því höfuðmáli. Í Dresden gistum við á hóteli sem er hluti alþjóðlegrar keðju sem teygir sig meðal annars til Íslands. Þar var meiri erfiðleikum bundið að komast inn á netið en á gististöðum sem falla undir Airbnb og við höfum notað í Leipzig og Berlín. Þar er greiður aðgangur að netinu ókeypis. Hótelkeðjan innheimtir 15 evrur fyrir 24 tíma netaðgang. Maður fær hann hins vegar ókeypis bóki maður beint hjá keðjunni en ekki í gegnum t. d. bookings.com og gerist auk þess meðlimur í sérstökum klúbbi keðjunnar.

Við skráningu út af hótelinu í Dresden bættist við kostnaður miðað við hið uppgefna verð hótelsins, það var 10 evru borgarskattur á nóttu, það er gistináttagjald sem hótelið innheimtir fyrir borgina og hagar innheimtunni þannig að gesturinn veit nákvæmlega hvert peningarnir renna. Er það þessi skattur sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill að hækki til að auka tekjur Reykjavíkurborgar?

Sé þetta gjald innheimt í Þýskalandi af þeim sem selja gistingu í gegnum Arbnb eða Bookings er það ekki sérstaklega tigreint af söluaðilum. Evran er nú tæpar 140 kr. og 10 evrur eru því tæpar 1.400 kr.

Samkvæmt íslenskum lögum um gistináttaskatt þarf leigusali að greiða 100 krónur á nótt fyrir hvert notað svefnpláss. Þessi gistináttaskattur er hinn sami á farfuglaheimilum og fjögurra stjörnu hótelum. Ríkisskattstjóri vill að skatturinn leggist einnig á gistinætur undir merkjum Airbnb. Hvernig framkvæmd á kröfu hans líður veit ég ekki.

Flugumferðarstjórar í skyndiverkföllum eru örugglega hættulegri framtíð ferðaþjónustu en viðleitni til að tryggja sjálfbærni þjónustunnar með gjaldtöku.