19.5.2016 19:00

Fimmtudagur 19. 05. 16

Það vakti athygli á dögunum að Magnús Orri Schram, formannsframbjóðandi í Samfylkingunni, telur Samfylkinguna standa í vegi fyrir því að fylgi flokksins aukist og þess vegna beri að ýta henni til hliðar. Í Fréttablaðinu í dag birtist grein eftir Magnús Orra þar sem hann segir lesendum hvað eigi að koma í stað flokksins. Hann segir:

Skrifstofa stjórnmálahreyfingarinnar á að vera á jarðhæð við fjölfarna götu þar sem er vítt til veggja og hátt til lofts. Dýnamískt umhverfi með kaffihúsi og félagsmiðstöð. Einhvers konar nýsköpunarhús stjórnmálanna. Neistaflug og nýjungar. Stjórnmálahreyfingar mega ekki staðna heldur eiga þær sífellt að leitast við að ná sem bestu sambandi við almenning.“

Af þessum orðum má ráða að formannsframbjóðandinn vill breyta Samfylkingunni í kaffihús og félagsmiðstöð. Hlýtur fylgi við hann að margfaldast við þetta.

Rætt var við Guðna Th. Jóhannesson forsetaframbjóðanda í Spegli ríkisútvarpsins í dag og snerist viðtalið um sögulegar tilvísanir Guðna Th. og skýringar hans á viðhorfum forseta í áranna rás. Augljóst er að styrkur hans sem frambjóðanda felst í þekkingu hans á forsetasögunni.

Í þessu ljósi er því ekki undarlegt að þeir sem keppa við Guðna Th. líti til sögunnar þegar rætt er um framboð hans og skoðanir. Þetta fer þó greinilega fyrir brjóstið á einhverjum, þar á meðal álitsgjafanum Agli Helgasyni. Honum finnst einkennilegt að rætt sé um afstöðu Guðna Th. til Icesave eða þorskastríðanna. Í von um að slá umræðum um þessi mál á dreif segir Egill í nýlegum pistli á Eyjunni: „Þá má kannski bæta við – hver var þín afstaða til ritsímans? Fjárkláðans (sem olli því á sínum tíma að Jón forseti móðgaðist). Og ef til vill má fara enn lengra: Hvernig stendurðu gagnvart kristnitökunni?“

Á sínum tíma var Egill málsvari rétttrúnaðarins í Icesave-málinu og um ESB-umsóknina. Nú er krafa Egils að allt sem sagt var eftir reglum rétt þenkjandi af forsetaframbjóðandanum Guðna Th., skuli í raun afmáð af spjöldum sögunnar, og þeir sem hafi fyrri orð hans eftir við kjósendur séu varhugaverðir. Líta beri á Guðna Th. sem pólitískan hvítvoðung frá framboðsdegi.

Guðna Th. er enginn greiði gerður með kröfum um þöggun hans vegna. Hún vegur beinlínis að ástæðu framboðs hans: hve oft hann hefur verið kallaður til sem fréttaskýrandi vegna þekkingar á sögunni.