23.5.2016 15:45

Mánudagur 23. 05. 16

Í morgun var 14. aðalfundur Aflsins, félags qi gong iðkenda. Þar flutti ég skýrslu stjórnar sem má lesa hér.

Í hádeginu tók ég þátt í fundi Amerísk-íslenska verslunarráðsins þar sem við Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi ræddum íslensk öryggismál. Fundurinn var ákveðinn áður en Guðni Th. bauð sig fram til forseta. Var gott að hann gaf sér tíma til að ræða sögu öryggismálanna frá síðari heimsstyrjöld til ársins 2006. Ég fjallaði um það sem gerst hefur eftir 2006 og þó sérstaklega um þróun mála eftir 2014, þáttaskilin sem urðu með innlimun Rússa á Krímskaga. Hér má sjá mynd frá fundinum sem einn fundarmanna, Guðmundur Snorrason, tók.

Það er tímanna tákn að verslunarráðið telji tilefni til að ræða öryggismálin á fundi sínum. Þau voru um áratugi þungamiðjan í samskiptum Íslendinga og Bandaríkjamanna. Mikil þekking á íslenskum málefnum var þá fyrir hendi í þeim stofnunum Bandaríkjastjórnar sem fjölluðu um öryggismál og íslensk málefni sérstaklega. Hér á landi var einnig djúptæk reynsla af samskiptum við bandarísk stjórnvöld.

Ég var minntur á breytinguna sem orðið hefur fyrir nokkru þegar ég ók gesti frá Bandaríkjunum sem gegnt hafði háum embættum á þeirra vegum, meðal annars á vettvangi NATO, til Keflavíkurflugvallar þar sem hann var að ná í vél heim á leið. Mér til mikillar undrunar virtist hann ekki hafa hugmynd um að í marga áratugi hefði Bandaríkjaher haldið úti stórri herstöð við Keflavíkurflugvöll sem hann lagði í síðari heimsstyrjöldinni.

Varnarsamstarfið við Íslendinga lá greinilega lengi í þagnargildi innan bandaríska stjórnkerfisins eftir að látið var undan kröfu Donalds Rumsfelds, þáv. varnarmálaráðherra, um að loka stöðinni árið 2006. Nú hefur þögnin verið rofin bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Stóra spurningin er hvert umræðurnar leiða okkur.

Í greinum sem Bandaríkjamenn skrifa taka þeir mið af gildi GIUK-hliðsins í kalda stríðinu í þágu eftirlits með kafbátaferðum frá flotastövum Rússa á Kóla-skaga fyrir austan Noreg í norðri. Keflavíkurstöðin gegndi lykilhlutverki í því eftirliti. Landafræðin hefur ekki breyst og ekki heldur gildi Íslands þegar hugað er að öryggi á Norður-Atlantshafi.

Þetta er augljós staðreynd sem minnt er á oftar nú en nokkru sinni fyrr í aldarfjórðung frá hruni Sovétríkjanna.