1.5.2016 15:00

Sunnudagur 01. 05. 16

Merkilegt er að fylgjast með því hve margir umturnast enn þann dag í dag þegar rætt er um forsætisráðherraferil Davíðs Oddssonar sem hófst 30. apríl 1991 og lauk 15. september 2004. Í tilefni af því að 25 ár voru liðin frá 30. apríl 1991 í gær ritaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor grein í Morgunblaðið þar sem hann lýsti stjórnmálastarfi Davíðs frá sínum sjónarhóli.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, sem af mestu innsæi skýrir hug Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann ræðir óljósum orðum um eigin framtíð gekk svo langt í tilefni af grein Hannesar Hólmsteins að segja á FB-síðu sinni: „Mitt mat (skoðun en ekki vísindi): DO er mesti ógæfumaður Íslandssögunnar í pólitík, Sturla Sighvatsson included ..“

Þessi lýsing á Sturlu birtist í grein eftir Aðalgeir Kristjánsson í Lesbók Morgunblaðsins 12. ágúst árið 2000:

„Sturla Sighvatsson er að sumu leyti persónugervingur Sturlungaaldar. Hann var glæsimenni, en valdagráðugur og yfirgangssamur við aðra höfðingja og hikaði ekki við að ganga á orð og eiða. Saga hans er flétta hagsmunasamninga, vinslita og undirmála eftir því hvernig vindurinn blés.“

Að nefna Davíð Oddsson og telja hann verri en mann sem „hikaði ekki við að ganga á orð og eiða“ eða hagaði seglum eftir vindi til „vinslita og undirmála“ ber vott um heift og vanþekkingu. Margt má segja um Davíð og störf hans, þau eru ekki hafin yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk, að vega að honum sem sviksömum ósannindamanni er hins vegar með öllu ómaklegt.

Til orðaskipta hefur komið í netheimum vegna þessara ummæla Ólafs Þ. Harðarsonar. Hann er nú staddur í Harvard-háskóla. Páll Bragi Kristjónsson segir til dæmis á FB-síðu Ólafs Þ.: „Hvað sem öðru kann að líða, getur sennilega komið til álita, Ólafur Þ. Harðarson, að telja þessi ummæli þín, frá Cambridge MA um fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, vera fyrir neðan þína virðingu og til vansæmdar.“ Ólafur Þ. svarar að bragði: „Soldill stráksskapur. Játa það strax. En má maður það ekki á sjötugsaldri?“

Er það ekki dæmigert að reyna að afgreiða mál sem „stráksskap“ þegar menn verða sér til skammar?  Dugar það fyrir prófessor og virðulegan álitsgjafa ríkisútvarpsins um stjórnmál og kosningar jafnvel þótt hann sé kominn á sjötugsaldur? Annað: Hvers eiga menn á sjötugsaldri eða eldri að gjalda?