11.5.2016 17:10

Miðvikudagur 11. 05. 16

Í dag ræddi ég við Guðna Th. Jóhannesson forsetaframbjóðanda í þætti mínum á ÍNN. Samtalið verður frumsýnt kl. 20.00 í kvöld og verður síðan á tveggja tíma fresti og einnig á tímaflakki Símans.

Í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var í morgun er Guðni Th. með tæplega 70% stuðning, Davíð Oddsson með tæp 14% og Andri Snær Magnason tæp 11%.

Í tilefni af könnuninni sagði Davíð við Bylgjuna:

„Þessi könnun er tekin eftir einn dag þar sem framboð mitt hefur legið fyrir og Guðni Jóhannesson fær mjög fína útkomu og ég óska honum til lukku með það. Ég las hana yfir þegar ég var að borða grautinn í morgun og ég verð að viðurkenna að ég bætti nokkrum rúsínum út á til að auka sætabragðið að öðru leyti er ekkert um þetta að segja.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, birti í dag í Morgunblaðinu og á heimasíðu sinni upplýsingar um eignir og skattgreiðslur sínar og Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur eiginkonu sinnar frá árinu 2007 til 2015. Sigmundur hvetur aðra kjörna fulltrúa til þess að birta ámóta upplýsingar.

Hafi Sigmundur Davíð haldið að þessar ítarlegu upplýsingar dygðu til að stöðva hælbítana rætist það ekki. Þeir halda áfram að glefsa í hann og meta framtakið einskis. Að stjórnmálamenn haldi áfram á þessari braut friðar ekki óvini þeirra heldur er eins og ákafi þeirra í að geta velt sér upp úr einhverju aukist við hvert skref sem stigið er til móts við þá.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spyr réttilega á FB-síðu sinni:

„Viljum við svona samfélag?

Samræmist þetta firðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu sem er stjórnarskrárvarið?

Samræmist þetta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þar sem segir að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta manréttinda án tillits til m.a. efnahags?“

Menn hika ekki við að grípa til rangfærslna til að sverta Sigmund Davíð. Gísli Baldvinsson bloggari er í þeim hópi þegar hann segir:

„Það skýrasta við framlagninguna er að hér sést skýrlega auðlegðarframlag Sigmundar og konu hans. Sjálfur lagði hann þennan skatt af ásamt fjármálaráðherra 2013. Þetta eru heilar 85 miljónir.“

Hið rétta er að Jóhanna og Steingrímur J. sem lögðu á þennan dæmigerða skatt vinstrisinna, auðlegðarskattinn, ákváðu að hann skyldi álagður í nokkur ár og var ekki hróflað við þeirri ákvörðun af nýrri ríkisstjórn eftir kosningar vorið 2013.