6.5.2016 18:40

Föstudagur 06. 05. 16

Skammt er stórra högga á milli á stjórn- og þjóðmálasviðinu.

Í fyrsta lagi: Ólafur Ragnar Grímsson hætti við að hætta sem forseti. Hann hefur síðan lent í óvæntum mótbyr af tveimur ástæðum (1) vegna upplýsinga í Panamaskjölunum um fjármál tengd fjölskyldu Dorritar, eiginkonu sinnar, (2) vegna framboðs Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings sem hefur fengið meiri byr í seglin en jafnvel áköfustu stuðningsmenn hans ætluðu, þeir segja 700 manns hafa verið á fundi í anddyri Salarins í Kópavogi þegar hann kynnti framboð sitt fimmtudaginn 5. maí.

Rætt var við Ólaf Ragnar föstudaginn 22. apríl á sjónvarpsstöðinni CNN. Christiane Amanpour spurði hvort hann sjálfur eða Dorrit ættu einhverja aflandsreikninga. „Er eitthvað sem á eftir að koma í ljós sem varðar þig eða fjölskyldu þína?" spurði Amanpour. „Nei, nei, nei, nei ,svaraði forsetinn, það ætti ekki eftir að gerast. Annað hefur komið í ljós. Nú segist forsetinn ekki hafa neina vitneskju um fjármál tengdafjölskyldu sinnar sem má til sanns vegar færa miðað við svar hans.

Í öðru lagi: Árni Páll Árnason hefur afsalað sér formennsku í Samfylkingunni. Þetta gerði hann í bréfi til flokksmanna í dag þar sem hann dró ákvörðun sína um að leita endurkosningar frá fimmtudeginum 28. apríl til baka. Á einni viku hefur hann áttað sig endanlega á að hann nýtur ekki nægilegs stuðnings. Á þessari viku hafa birst niðurstöður í þremur skoðanakönnunum sem sýna allar að fylgi Samfylkingarinnar er í sögulegu lágmarki, um 9%. Í bréfinu til flokksmanna segir Árni Páll meðal annars:

Staða flokksins er óásættanleg. Sem fyrr vara ég flokksfólk við að halda að á henni séu einfaldar lausnir. En hugsjónir jafnaðarmanna þurfa samhentan og skynsaman flokk sem ber þær fram og persónur geta ekki staðið þeim framar. Ég hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs sem formaður flokksins.“

Áður en Árni Páll steig þetta skref hafði Katrín Júlíusdóttir, varaformaður flokksins, einnig sagt sig frá flokksforystu fyrir utan að falla frá framboði til þings í næstu kosningum.

Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, er talin sigurstranglegust af formannsframbjóðendum. Hún er lengst til vinstri af þeim. Með því að kjósa hana kann Samfylkingin að höggva í raðir vinstri grænna sem hafa verið á nokkurri siglingu. Kapphlaupið á vinstri vængnum er rétt að hefjast.