16.5.2016 19:15

Mánudagur 16. 05. 16

Í allan dag sat ég málstofu í Snorrastofu í Reykholti um höfundarverk Snorra Sturlusonar og viðtökur þess. Viðfangsefni fyrirlesarana sýndu að líta ber til margra þátta þegar hugað er að höfundarverki Snorra. Leitað var svara við spurningunni um höfund eða höfunda þegar litið er til miðaldaverka og hvort æðri eða umfram merking fælist í verkum Snorra. Rætt var um melankólíu á tímum Snorra, sagnaritun og brúðkaup í Reykholti 1241 og endurritarann Snorra. Þá var litið til Snorra og mótunar ensku þjóðarinnar, Snorra og Norðmanna í Ameríku og loks til ímyndar Snorra og Reykholts í nútímanum.

Málstofan markar upphaf nýs rannsóknarverkefnis á vegum Snorrastofu um höfundarverk Snorra og í ávarpi við setningu þess, sem má lesa hér, gerði ég grein fyrir öðru rannsóknarverkefni sem nú er ýtt úr vör með aðild Snorrastofu, Þingeyraverkefninu.

Áhugi á miðaldamenningu á Íslandi er mikill og vaxandi eins og sést best af mikilli aðsókn á fyrirlestra sem Miðaldastofa Háskóla Íslands skipleggur en þeir snerust á liðnum vetri um Sturlungu.

Snorrastofa kom til sögunnar fyrir 20 árum og mátti ekki vera seinna á ferðinni til að hún gæti orðið virkur þátttakandi og í raun nýsköpunarvettvangur í fræðilegu miðaldabyltingunni sem við kynnumst nú í upphafi 21. aldar.

Ánægjulegt er að ríkisstjórnin hefur kynnt áætlun um að hús íslenskra fræða rísi á því tímabili sem ný fjárlagaáætlun spannar. Það er ekki vansalaust að handritunum sé ekki búin umgjörð sem hæfir þeim og aðstöðu til að rannsaka þau.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að hér sé sköpuð aðstaða til alþjóðlegs háskólanáms í ýmsum greinum s.s. jarðfræði og sjávarútvegi. Ekki er síður mikilvægt að skapa aðstöðu á heimsmælikvarða fyrir þá sem vilja rannsaka íslenskan menningararf og miðla honum til umheimsins.

Hvað sem líður höfundarverki Snorra er hann mikilvægt „brand“, svo að vitnað sé til nútíma markaðsfræða, sem ekkert fær haggað og unnt er að nýta á margvíslegan hátt Íslandi og Íslendingum til framdráttar og til að bregða allt annarri mynd á þjóðina en birtist í fjármálabröltinu.

Til Reykholts koma tug þúsundir manna ár hvert í einskonar pílagrímsför. Rannsóknir sem þar hafa verið stundaðar undanfarin ár leggja grunn að enn öflugri kynningu á Snorra en til þessa. Hið ótrúlega er hve erfitt er að afla skilnings á því meðal fjársterkra aðila í ferða- eða fjármálaheiminum hvílík tækifæri felast í að gera veglegan minjagarð um Snorra í Reykholti.