26.5.2016 12:00

Fimmtudagur 26. 05. 16

Leipzig fylltist af þátttakendum í kaþólskum dögum sem verða hér fram yfir helgi. Þessa daga sækja kaþólikkar alls staðar að úr Þýskalandi og einnig frá öðrum löndum. Á öllum torgum borgarinnar eru útisvið þar sem sungnar eru messur, hljómsveitir og kórar flytja tónlist og ræðumenn tala.

Tug þúsundir manna ganga um miðborgina og njóta þess sem er í boði. Hvarvetna eru sölu- eða kynningartjöld. Hátíðargestir eru auðþekktir á ljósgrænum klútum sem þeir bera um hálsinn. Ljósgrænn er einkennislitur þessarar hátíðar sem nú er haldin í 100. skipti en í fyrsta sinn hér í Leipzig sem er í grunninn mótmælendatrúar eftir að Marteinn Luther var uppi og flutti boðskap sinn í Tómasar-kirkjunni árið 1539.

Um 560.000 manns búa í Leipzig þar af eru um 26.000 kaþólskir eða 4%. Í söfnuðum mótmælenda eru um 70.000 manns eða um 13% íbúa borgarinnar. Að ferðast um austurhluta Þýskalands nú á tímum miðað við það sem áður var er að vegna nýlegrar endurreisnar hér er allt nýlegt eða nýtt og sniðið að nútímaþörfum, gististaðir, veitingahús og verslanir.

Að heimsækja Nikulásar-kirkjuna núna eðs snemma árs 1990 skapar minningu um gjörbreytinguna sem orðið hefur síðan kitkjan var miðstöð mánudags-mótmælanna í aðdraganda þess að múrinn hrundi og kommúnisminn með honum. Þá bar kirkjan merki þess að vera miðstöð fjöldahreyfingar mótmælenda nú var strengjasveit að æfa þar verk í samleik með orgelinu þegar við litum inn í hana í hádeginu í gær.

Gewandhaus-hljómsveitin á rætur aftur til 1743 þegar stofnað var til hljómleika í Gewandahaus, það er húsakynnum vefara í Leipzig. Enn er opið Gewandhaus í Leipzig, glæsilegt tónlistarhús frá 1981 við Agústusar-torg andspænis óperuhúsinu.

Við fórum þar á tónleika hljómsveitarinnar í gærkvöldi, svonefna kynningartónleika, þar sem Vorblótið eftir Stravinsky ar kynnt og flutt. Hinn heimsfrægi Andris Nelsons stjórnaði. Hann er nú að verða 21. Gewandhauskapellmeister, það er aðalstjórnandi samhliða því að vera aðalstjórnandi Boston Symphony Orcherster.

Við Ágústusar-torg stóð einnig háskólakirkjan, Páls-kirkjan, sem Walter Ulbricht kommúnistaleiðtogi lét sprengja í loft upp árið 1968 sjálfum sér og flokknum til eilífrar skammar. Í Leipzig er forvitnilegt safn um Stasi, austur-þýsku öryggislögregluna. Þar má kynnast aðferðunum sem kommúnistar beittu gegn þegnum sínum til að tryggja eigin völd.