22.5.2016 19:00

Sunnudagur 22. 05. 16

Í dag var endurflutt viðtal Arnþrúðar Karlsdóttur við Davíð Odddsson forsetaframbjóðanda á Útvarpi sögu. Þar var víða komið við en aldrei að tómum kofanum hjá Davíð.

Arnþrúður hafði meðal annars áhuga á að vita hvaða aðferð Davíð sæi til að veita ríkisútvarpinu aðhald. Hann nefndi þá snjöllu lausn að menn gætu merkt við það á skattskýrslu sinni hvort þeir vildu njóta þjónustu ríkisútvarpsins eða ekki. Hann nálgaðist málið meðal annars með þeim orðum að varla gætu ríkisútvarpsmenn andmælt þessu. Þeir töluðu jafnan á þann veg að öll þjóðin nyti þjónustu þeirra og vildi fá að njóta hennar. Þá ætti ekki að fella niður skatt hjá þeim sem vildu ekki að hann rynni til ríkisútvarpsins, þeir yrðu skyldaðir til að láta skattinn renna til annarrar stofnunar sem starfaði í þjóðarþágu.

Það verður spennandi að sjá hvort þessi hugmynd Davíðs nær flugi og einhver stjórnmálaflokkur tekur hana upp á arma sína.

Á vefsíðunni Stundinni birtist í dag úttekt tveggja blaðamanna hennar Ísaks Regals og Jóns Trausta Reynissonar. Úttektin ber fyrirsögnina: Sigurplan Davíðs Oddssonar. Í opnum kafla á netinu segir:

„Hluti af herbragðinu er að fá her sjálfboðaliða til þess að svara gagnrýni fólks á Davíð á Facebook. Annar hluti er að gefa þá mynd af Davíð að hann sé hress og skemmtilegur og standi vaktina betur en aðrir. Þriðji hlutinn hernaðaráætlunar Davíðs er að grafa undan öðrum frambjóðendum.

Blaðamaður Stundarinnar skráði sig sem sjálboðaliða hjá kosningateymi Davíðs Oddssonar til að kynna sér aðferðir umdeildasta stjórnmálamanns síðustu áratuga á Íslandi, sem nú vinnur að því að ná fordæmalausri stöðu með samtengingu forsetaembættisins og ríkisstjórnarinnar.“

Lengra las ég ekki vegna skorts á áskrift á Stundinni. Síðari efnisgreinin gefur til kynna að beitt hafi verið laumulegri aðferð til að afla hernaðaráætlunar Davíðs og hans manna. Í fyrri efnisgreininni er sagt frá hvernig stuðningsmenn Davíðs ætla að kynna og berjast fyrir sinn.

Þyki blaðamönnum Stundarinnar þarna um frumlegt „herbragð“ Davíðsmanna að ræða er það fyrst og síðast til marks um reynsluleysi blaðamannanna af kosningabaráttu. Allt eru þetta sjálfsagðir hlutir í slíkri baráttu, Nýmælið er hve skipulega Davíðsmenn nýta Facebook og hve mikill áhugi er á að hafa samband við Davíð þar. Hann skyldi þó aldrei brjóta ísinn við notkun samfélagsmiðla í kosningabaráttu á Íslandi?