21.5.2016 19:00

Laugardagur 21. 05. 16

Sigurður Sigurðarson er ötull bloggari eins og sjá má hér. Hann vekur í dag máls á því að Atli Fannar Bjarkason, sjálfstæður pistlahöfundur [leiðrétt frá upphaflegum texta þar sem hann var sagður blaðamaður] á vefsíðunni kjarninn.is, fær ekki á heilum sér tekið vegna forsetaframboðs Davíðs Oddssonar. Atli Fannar býsnast yfir því að á mbl.is hafi birst frétt undir fyrirsögninni að 27.000 manns hafi horft á Davíð svara spurningum í beinni útsendingu á Facebook-síðu símafyrirtækisins Nova nú í vikunni. Dregur Atli Fannar fjöldann í efa og segir í grein undir fyrirsögninni: Er öllum drullusama um Morgunblaðið? að deila megi í fjöldann með þremur. Sigurður Sigurðarson segir af þessu tilefni:

„Annars er það grátlega fyndið að lesa tilraun Atla Fannars til að telja niður þá sem fylgdust með upptöku af viðtalinu við Davíð Oddsson. Með tæknilegum útskýringum fær hann það út að aðeins 9.000 manns hafi horft á viðtalið, ekki 27.000.

Hann deilir í töluna með tveimur eða þremur. „En þetta snýst ekki um það,“ segir Atli. Lesandanum er það ljóst. Þetta snýst eiginlega um Atla Fannar og heift hans gegn Davíð, en hverjum er ekki „drullusama“ um geðheilsu hins fyrrnefnda.

Davíð var reglulega fyndinn og skemmtilegur í þessu viðtali, ég hlustaði á það allt og skemmti mér afar vel.“

Davíð Oddsson sló í gegn í þessu viðtali eins og öðrum sem hann hefur veitt í kosningabaráttunni. Á ensku nota menn orðið narrative til að lýsa því hvernig frambjóðendur eða aðrir ná til fólks með boðskap sínum, að hann hafi innihald sem höfðar til fólks. Augljóst er á viðbrögðum við samtölum við Davíð í fjölmiðlum að það sem hann hefur fram að færa höfðar til fólks og hreyfir við því. Enginn annar frambjóðandi hefur slíka skírskotun og þess vegna er líklegt að þeir verði leiðinlegir eftir því sem oftar er talað við þá. Engin hætta er á að Davíð lendi í þeirri stöðu.

Fleira er fyndið við uppnámið hjá Atla Fannari en það sem Sigurður nefnir. Fyrir nokkrum vikum skömmuðu Atli Fannar og félagar Morgunblaðið fyrir að segja 9.500 manns hafa komið saman til mótmæla á Austurvelli 4. apríl en ekki 23.000 eins og fjölmiðlavinir mótmælenda nefndu. Lögreglan staðfesti að Morgunblaðið fór með rétt mál. Ætli Atli Fannar leiti til hennar núna vegna fjöldans sem heimsótti Nova á meðan Davíð svaraði þar spurningum?