7.5.2016 13:30

Laugardagur 07. 05. 16

Vegna þess hvernig reikningshaldi sveitarfélaga er háttað er lítið gegnsæi í því og þess vegna erfitt fyrir almenning að átta sig á raunverulegri stöðu þegar hallar undan fæti. Þetta skýrir meðal annars hvers vegna erfitt er að átta sig á hvað raunverulega gerðist í Reykjanesbæ og varð til þess að nú rambar hann á brúninni.

Staðan er nú sú í Reykjavík að ógjörningur er að ræða raunverulega fjárhagsstöðu borgarinnar vegna leikni þeirra sem fara með stjórn hennar við að fela sporin, megi orða það svo.

Dæmigert er að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skuli tala um „tekjuvanda“. Með því vísar hann einfaldlega til þess að hann geti ekki aflað nægilega mikilla tekna til að standa undir útgjöldunum. – Þetta er hin dæmigerða afstaða sósíalista sem líta á álögur á almenning sem upphaf og enda velgengni sinnar í stjórnmálum. Draumur Dags B. er að krækja í meiri tekjur í stað þess að horfast í augu við hinn raunverulega vanda sem snýr að rekstrinum, útgjöldunum.

Dagur B. kvartar undan tekjuvanda þegar útsvar er eins hátt og það má vera og skatttekjur hærri en áætlað var. Borgarstjórinn er einfaldlega ekki fær um að taka erfiðar ákvarðanir um rekstur borgarinnar. Hann kýs að láta taka af sér myndir við að hreinsa drasl úr Tjörninni vegna þess að ESB stofnar til hreinsunardags eða með felgujárn í hendi 15. apríl þegar skipta ber á sumardekk. Að hann gangi fram fyrir skjöldu sem raunverulegur stjórnandi borgarinnar gerist einfaldlega ekki.

Sé svo komið í grunnskólum Reykjavíkur að vegna skorts á fagfólki sé ekki unnt að sporna gegn nýjum aðferðum til að hrella nemendur í grunnskólum borgarinnar er það málefni sem borgarstjórinn á að láta sig varða. Hann þegir þunnu hljóði. Einnig þegar rifin eru friðuð hús í leyfisleysi eða vegið að grafarró í elsta kirkjugarði borgarinnar á þann veg að mörgum blöskrar.

Þegar reikningar ársins 2015 voru til umræðu í borgarstjórn þriðjudaginn 3. maí sagði Dagur B. að að háar lífeyrisskuldbindingar hefðu „stolið senunni“ í ársreikningnum. Virðist þetta hafa komið honum í opna skjöldu því að hann stóð á sínum tíma á áætlun sem gerði ráð fyrir 7,3 milljarða afgangi en hallinn varð tæpir 5 milljarðar, það er 12 milljarða munur. Það muna um minna!