Sunnudagur, 17. 09. 06.
Réttað var í Fljótshlíðinni í morgun í hita og blíðu.
Sagt var frá því í kvöldfréttum sjónvarps ríkisins, að Guðlaugur Þór Þórðarson ætlaði að bjóða sig fram í 2. sætið í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík og látið að því liggja, að það væri vegna einhvers ágreinings okkar Geirs H. Haarde, formanns flokksins og forsætisráðherra. Við Geir eigum ágætt samstarf á vettvangi flokks og ríkisstjórnar og að mínu áliti er enginn fótur fyrir þessu mati fréttastofunnar á ástæðum framboðs Guðlaugs Þórs, en fréttastofan gat ekki um neinn heimildarmann.
Nokkrir dagar eru liðnir frá því, að ég tilkynnti um framboð mitt í 2. sætið. Þá sagði ég jafnframt, að þetta yrði síðasta kjörtímabil mitt á þingi. Fyrir mig er engin nýlunda, að fleiri sækist eftir sama sæti og ég í prófkjöri. - Ég hef ekki boðið mig fram gegn neinum samflokksmanna minna, enda tel ég samstöðu innan flokka best fallna til sigurs og hef viljað vinna að henni innan Sjálfstæðisflokksins á þingi og í borgarstjórn. Í þeim anda lagði ég mig fram um einingu innan flokksins um Geir sem eftirmann Davíðs Oddssonar á formannsstóli og einnig um Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem oddvita okkar sjálfstæðismanna í borgarstjórn.